131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:42]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að þeir sem hér á landi stunda húðflúr tilheyra ekki heilbrigðisstéttunum. Hárkollumeistarar eru það ekki heldur, þeir eru ekki heilbrigðisstétt, og hárkollur eru töluvert misjafnar. Engu að síður er sjúklingnum, þeim sem missir hárið, í sjálfsvald sett hvert hann fer og kaupir sína hárkollu og úr hvers konar hárum hún er gerð, hvort það er ekta eða hvort það er annað efni sem gæti valdið verulegu ofnæmi. Sjúklingnum er hins vegar treyst til þess að gera þetta.

Ég held að það sé líka það sem þarf að gera varðandi húðflúrið þannig að styrkurinn nái til þess. Reglugerðarbreytingin sem hæstv. ráðherra gerði í vetur var verulega jákvæð og alls staðar hefur henni verið fagnað af þeim sem áður þurftu að lúta þeim reglum sem í gildi voru.

Það er hins vegar eitt sem ég ætla að ítreka hér og það er varðandi sjúklinga á öldrunarstofnunum sem eru eða hafa verið í krabbameinsmeðferð, misst brjóst eða misst hárið. Það er undir öldrunarstofnuninni komið hvort sjúklingurinn sem á rétt á þessum hjálpartækjum, hárkollunni, gervibrjóstum eða annarri vöru, fá þau í því magni sem hann á rétt á. Ég veit að þar er misbrestur á.

Líkami aldraðra breytist örar en þeirra sem yngri eru. Þess vegna er kannski meiri þörf á því að aldraðar konur eigi rétt á gervibrjósti á hverju ári en þær sem yngri eru. Það þyrfti að herða eftirlit með því að réttur þessara sjúklinga til hjálpartækjanna sé virtur þegar þeir eru komnir inn á öldrunarstofnun og að það sé fylgst með því þegar ofnæmi myndast vegna hárkollu eða endurnýja þarf gervibrjóst að þá sé það gert.