131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:44]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég er almennt þeirrar skoðunar að fólk eigi að hafa valfrelsi í þessum efnum eftir því sem mögulegt er, en hér hefur málið snúist að nokkuð miklu leyti um húðflúrið og hvernig eigi að standa að því máli. Það er alveg rétt að hluti af vandamálinu er að húðflúrarar eru ekki heilbrigðisstétt. Í öðru lagi hafa þær verðhugmyndir sem hafa verið í viðræðum við samninganefndina okkar ekki verið aðgengilegar fram að þessu. Við munum halda áfram að skoða þetta mál.

Varðandi öldrunarstofnanirnar vil ég geta þess að ég hef átt viðræður við landlækni um málefni öldrunarstofnana almennt og eftirlit á þeim. Hann hefur hugsað sér að efna til viðræðna við forsvarsmenn öldrunarstofnana um málefni þeirra og starfsemina þar inni. Það er mikilvægt mál. Ég tel að það sé eðlilegur farvegur, a.m.k. fyrst í stað, að fara þá leiðina og hef hug á því að fylgjast grannt með því. Auðvitað er framkvæmd þessa eitt af þeim málum sem er eðlilegt að ræða á þeim vettvangi. Ég veit að landlæknisembættið hefur hug á að efna til almennra umræðna um aðstöðu og aðbúnað fólks á öldrunarstofnunum og starfsferla þar inni. Ég tel að það sé nauðsynlegt mál.

Að öðru leyti þakka ég þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál. Þótt ég hafi svarað fyrirspurn sem er skyld þessu núna nýverið er góð vísa sjaldan of oft kveðin.