131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[14:59]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ef ég hef skilið hæstv. heilbrigðisráðherra rétt er hann að segja að ekki standi til og að hann muni ekki beita sér fyrir því að setja á fót sérhæfða móttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis heldur frekar útvíkka móttökuna fyrir þolendur nauðgana. En þá þarf svo sannarlega að fylgja fjármagn í þá starfsemi. Það þýðir ekki eingöngu að demba þessum málaflokki sem hefur margs konar sérstöðu fram yfir nauðganir og ætlast til að sú sérhæfða móttaka sem við höfum nú þegar fyrir þolendur nauðgana sinni þolendum heimilisofbeldis nema að meira komi til. Ég vil fá betri svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort hann ætli að dýpka þá móttöku sem við höfum nú þegar og þá með hve miklu fjármagni.

Síðan held ég að það sé mikilvægt í þessari umræðu að þær 2 milljónir sem ríkisstjórnin og þáverandi dómsmálaráðherra ákváðu að setja í þetta verkefni voru ekki eingöngu eyrnamerktar lögfræðiaðstoð. Það var sagt að þær ættu að vera meðal annars fyrir lögfræðiaðstoð. Hins vegar hefur hluti fjármagnsins eingöngu farið í lögfræðiaðstoð. En þetta kom mér spánskt fyrir sjónir þegar ég skoðaði lögin um meðferð opinberra mála því að þar kemur fram að þolendur heimilisofbeldis eiga nú þegar rétt á réttargæslumanni án kostnaðar. Ég tel því að þessar 2 milljónir ættu að vera nettóaukning sérstaklega í aðhlynningu fyrir þolendur heimilisofbeldis en ekki fara í lögfræðiaðstoð. En það er kannski önnur umræða.

Ég fagna þó því að við fengum umræðu um þetta mál. Við vitum að um 140 skilgreind heimilisofbeldismál koma upp á hverju einasta ári í slysa- og bráðadeild og aðeins brotabrot af þeim enda fyrir dómi. En við þurfum að leggjast öll á eitt til að hafa viðeigandi úrræði á spítalanum sem er oft fyrsti snertiflötur viðkomandi einstaklings og við þurfum að láta fjármagn í það. Baráttan gegn heimilisofbeldi þarf einfaldlega að njóta forgangs þegar kemur að útdeilingu á fjármagni skattborgaranna.