131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[15:02]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið hér fram um þetta alvarlega mál. Ég vil taka það fram í upphafi að ég er ekki að draga úr mikilvægi þessarar starfsemi að neinu leyti. Ég tók það fram að mér finnst mjög áríðandi að þessi þjónusta sé veitt á spítalanum og við munum fylgjast með því að svo verði áfram og tryggja þeirri þjónustu fjármagn. Annað mál er svo skipulag þeirrar þjónustu.

Mér finnst skipta mestu máli að þessi þjónusta sé veitt og að veitt sé fjármagn til þess að standa undir henni. Það er auðvitað hluti af þessu máli að fólk sé meðvitað um rétt sinn og aðkoma dómsmálaráðuneytisins að málinu er nauðsynleg þess vegna. En hinn heilbrigðislegi þáttur málsins er ekki síður mikilvægur og hinn sálræni þáttur málsins. Ég er alveg meðvitaður um að okkar hlutverk er að tryggja að það sé í lagi og tryggja að fólk viti af því að þessi þjónusta sé fyrir hendi á spítalanum.