131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Listmeðferð.

449. mál
[15:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að hafa borið fram þessa fyrirspurn á hinu háa Alþingi og vakið athygli á þessu máli, þ.e. stöðu listmeðferðar og listmeðferðarfræðinga. Þetta er að ég hygg hlutur sem kannski ekki margir hafa heyrt um. En þegar maður fer að hugsa um það sér maður að hér er á ferðinni afskaplega merkilegt — hvað eigum við að segja — fyrirbæri. Er það of slæmt orð? Nei, það er sagt með jákvæðum huga.

Við hljótum að stefna að því í framtíðinni að þetta verði viðurkennd starfsstétt innan heilbrigðisgeirans. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mörgu leyti jákvætt svar en um leið vil ég fá að lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir því að hann skuli ekki hafa séð sér fært að svara hér fyrr í dag fyrirspurnum mínum um Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja því að þar bíður fólk virkilega eftir svörum. Ég vildi bara að það kæmi fram.