131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Hjólreiðabrautir meðfram Vesturlandsvegi.

416. mál
[15:16]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um hjólreiðabrautir meðfram Vesturlandsveginum, sem unnið er að því að tvöfalda um þessar mundir. Ég spyr hæstv. ráðherra hvaða áform séu uppi um umferð hjólandi vegfarenda eftir Vesturlandsvegi eftir tvöföldun hans. Ég óska upplýsinga um breytingar á framkvæmdinni eftir að Samtök hjólreiðafólks sendu inn athugasemdir varðandi framkvæmdina.

Hæstv. forseti. Oftar en ekki þurfa hjólreiðamenn að vakta stórframkvæmdir sem tengjast umferðinni og umferðarmannvirkjum á mjög öflugan máta. Samtök hjólreiðafólks eru ekki löt að setja fram athugasemdir sem eru að mínu mati vel rökstuddar. Þau styðjast yfirleitt við erlendar úttektir, skýrslur og sambærilegar framkvæmdir í nágrannalöndum okkar.

Hitt hefur viljað brenna við að eyru manna hafa ekki verið nægilega opin fyrir sjónarmiðum hjólreiðafólks hvað þetta varðar. Æ oftar er hjólreiðafólki bara vísað á útivistarstígana með hjól sín. Þetta er auðvitað allsendis ófullnægjandi, hæstv. forseti, þegar þess er gætt að stjórnvöld hafa sjálf gefið yfirlýsingar að hjólið eigi að geta verið jafngilt samgöngutæki og önnur samgöngutæki í bænum. Stjórnvöld hafa látið í ljós að þau vilji efla hlut sjálfbærra samgangna. Þau hafa meira að segja skuldbundið sig til þess á alþjóðavettvangi.

Að þessu leyti finnast mér efndir ekki fylgja orðum. Þegar ég skoða hugmyndir um framkvæmdir við Vesturlandsveginn sé ég að það á ekki, eftir því sem ég get lesið í gögnum sem eru mér aðgengileg, nema að litlu leyti að fara eftir þeim óskum sem hjólreiðafólk setur fram. Þar er t.d. að líta til hluta eins og hlykkja á stígum. Það þarf að leggja hjólreiðastíga meðfram stórum hraðbrautum þannig að ekki sé mikið um hæðarbreytingar á leiðinni, slíkt eykur í eðli sínu slysa hættu. Það er líka nauðsynlegt að skoða á hvern hátt stígur hjólreiðafólks liggur um undirgöng. Stundum eykur það slysahættuna. Þannig mætti áfram telja.

Hæstv. forseti. Ég hef sett þessa fyrirspurn fram til hæstv. samgönguráðherra til að fá fram á hvern hátt Vegagerðin ætlar að verða við óskum hjólreiðafólks í þessum efnum. Ég vonast til þess að hæstv. samgönguráðherra haldi áfram vakandi auga á málefnum hjólreiðafólks því að verulegra úrbóta er þörf í þeim efnum ef við eigum að geta nýtt hjólið sem samgöngutæki á Íslandi.