131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Lýsing vegarins um Hellisheiði.

471. mál
[15:36]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir það að tilboð stjórnarformanns Orkuveitunnar, Alfreðs Þorsteinssonar, var ákaflega skýrt, bæði í fréttum sjónvarps og á opinberum fundum. Því er ástæða til að hvetja hæstv. ráðherra til að hafa frumkvæði að því að leita eftir viðræðum við þá, fara yfir málið, hversu hagstætt tilboðið sé og hversu mikið aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að lýsingu, vegabótum og helst breikkun vegarins á þessum kafla gæti flýtt fyrir framkvæmdunum. Ég fullyrði að þríbreiður Suðurlandsvegur frá Rauðavatni að Selfossi er eitt mikilvægasta verkefni okkar í samgöngumálum, nú þegar tvöföldun Reykjanesbrautar liggur fyrir. Þess vegna er ástæða til að kalla eftir því að þríbreikkun vegarins og lýsing að hluta fari inn á samgönguáætlun hið fyrsta og að leitað verði eftir öllum leiðum til að flýta fyrir þessari framkvæmd og auðvelda gerning hennar.

Engin ástæða er til annars en að kanna aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur að þessu máli. Orkuveitan stendur núna fyrir mjög miklum virkjanaframkvæmdum á Hellisheiði og fyrirsjáanlegt er að það sé einungis upphafið að þeim framkvæmdum þar sem áætlanir Orkuveitunnar segja til um 600 megavatta orkuframleiðslu þar þegar þær verða allar komnar til. Það er sjálfsagt mál að Orkuveitan komi að þessum vegaframkvæmdum sem er að flýta breikkun Suðurlandsvegar, rétt eins og Landsvirkjun hefur gert annars staðar á Suðurlandsundirlendinu þar sem hún hefur virkjað.

Að öðru leyti vil ég taka fram að þær tölur sem ég vitnaði til áðan, um þá miklu aukningu sem hefur orðið um Suðurlandsveg, 70% umferðaraukning á síðustu 12 árum yfir Hellisheiði, 80% á milli Hveragerðis og Selfoss, eru bráðabirgðatölur frá Vegagerðinni. Ég fékk þær þaðan í dag þannig að þetta ættu að vera mjög raunhæfar og trúverðugar tölur.

Ég vil aftur nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherra að leita eftir umræðum og viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur og kanna hug þess fyrirtækis sem og að koma þríbreikkun og lýsingu Suðurlandsvegar að hluta inn á samgönguáætlun hið fyrsta.