131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Lýsing vegarins um Hellisheiði.

471. mál
[15:38]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að ýmsar hugmyndir berast, jafnvel í gegnum fréttir, til samgönguyfirvalda og Vegagerðarinnar um nauðsynlegar lagfæringar á vegakerfinu. Nánast hvern einasta dag berst eitthvað slíkt, m.a. frá hv. þingmönnum. Sannleikurinn er sá að samgönguráðherra mundi gera nánast ekkert annað en að leita eftir samningum og heyra hugmyndir á fundum frá öllum þeim sem vilja gefa góð ráð um nauðsynlegar, arðbærar og mikilvægar framkvæmdir í samgöngumálum þjóðarinnar ef hann ætti að hlaupa eftir öllu slíku. Ég hef ekki hugsað mér að opna á slíka fundaröð.

Þegar ágætur formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur var í því verkefni að skýra fyrir þjóðinni, og þá sérstaklega Reykvíkingum, hvernig kostnaður við byggingu stóra hússins hjá Orkuveitunni var til kominn og hversu mikið var farið fram úr áætlunum þar spratt upp sú frábæra hugmynd að Orkuveitan kæmi að málinu. Það er afskaplega gott mál og var kynnt rækilega að Orkuveitan væri tilbúin til að koma til móts við þjóðina og lána henni stórfé til að hita upp fjallvegi. Það er auðvitað mjög gott verkefni ef við höfum efni á því, Íslendingar, að hita bara upp fjallvegina (Gripið fram í.) (BjörgvS: Og lýsa.) og lýsa. Við teljum mikilvægt að lýsa tiltekna parta af fjölförnum leiðum og við höfum verið að gera það. Að því munum við vinna og ég tek bara undir með hv. fyrirspyrjanda með að við þurfum að leggja verulega áherslu á það að auka afkastagetu Suðurlandsvegarins. Að því munum við vinna.