131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Förgun sláturúrgangs.

476. mál
[15:52]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Um leið og hv. þingmenn tala um sorgarsögu kjötmjölsins vil ég hafa það alveg á hreinu að þegar til verksmiðjunnar var stofnað af mjög öflugum aðilum, sláturfélögum, sveitarfélögum, Sorpu og fleirum, fór ég með mínum þáverandi ráðuneytisstjóra, Birni Sigurbjörnssyni, sem þekkti mjög vel til þessara mála og vissi hvað þau voru viðkvæm, á fund stofnendanna. Það má aldrei gerast í matvælalandinu Íslandi að við notum kjötmjöl til eldis dýra sem eru notuð til manneldis. Það snýr að kúariðu og BSE, það snýr að hreinu Íslandi o.s.frv. þannig að við vöruðum mjög við því. (BjörgvS: Getum við ekki látið …?) Hér er ég búinn að segja að þetta er hægt hvað loðdýrafóður varðar. Ég vil bara vekja athygli á því að sterkasti banki þessa lands á þetta fyrirtæki í dag, sterkasti bankinn, KB-banki. Hann tók þátt í því með þessum fyrirtækjum að fjármagna þetta fyrirtæki. Áfall á heimsmarkaði olli því hvernig fór. Auðvitað hljóta þeir að leita allra leiða til að reka þessa verksmiðju sem eyðingarverksmiðju.

Ég get ekki svarað hér spurningum sem eru á fagsviði annars ráðherra. Ég hygg að landbúnaðurinn sem oft er talinn vera í vörn og eiga erfitt þoli líka illa viðbótargjaldtökur ofan á sláturkostnað sinn. Ég tel að þetta sterka fyrirtæki, KB-banki, hljóti að leita allra leiða til að reka verksmiðjuna sem eyðingarverksmiðju og auðvitað hlýtur að vera eðlilegt að horfa til þess í framtíðinni að slík verksmiðja starfi og jörðin taki ekki við þessum úrgangi eins og verið hefur í gegnum aldir. Þessu þarf að eyða, og sláturfélögin borga stórgjald til sveitarfélaganna vegna eyðingar á slíku. Það gjald getur allt eins farið til verksmiðjunnar. Ég tel, hæstv. forseti, að þessi verksmiðja hafi ágætan grundvöll til að starfa sem eyðingarverksmiðja með það að aukabúgrein að framleiða loðdýrafóður.