131. löggjafarþing — 70. fundur,  9. feb. 2005.

.

. mál
[15:58]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Svar mitt við þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar fram er stutt. Ég mun gera það. Núna um nokkurt skeið hefur verið í gangi vinna hjá starfshópi, sem ráðuneytið á aðild að og fulltrúar heilbrigðisstofnana og læknar, um að vinna í lyfjamálum heilbrigðisstofnana. Um er að ræða margþættar aðgerðir, koma á lyfjalistum þar sem þeir eru ekki fyrir hendi eða bæta þá vinnu, koma lyfjanefndum í gang og m.a. það sem snýr að stærsta spítalanum, Landspítalanum, sem hefur verið í tengslum við þessa vinnu. Víða hafa verið settar reglur um lyfjakynningar og skráningar ferða. Það er komið í gang á Landspítalanum eins og hefur komið fram í viðtölum við forstjóra spítalans.

Þetta starf hefur gengið vel, verið í gangi síðasta árið og það horfir ágætlega. Ég tel að við þurfum að halda áfram ótrauð í þessari vinnu.

Varðandi aðgerðir í þessum efnum er mér að öðru leyti kunnugt um að Læknafélagið hefur vilja til að vinna í þessum málum varðandi samskiptasamning sinn við lyfjafyrirtækin. Ég tel einboðið að hafa gott samstarf við Læknafélagið og forustu þess um það. Hún hefur sýnt vilja til að taka á þessum málum og hún verður að taka á þeim í samræmi við siðareglur sínar og gildandi samskiptasamning. Að öðru leyti eru reglur í gangi um kynningu lyfja sem við leggjum áherslu á að sé farið eftir.