131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um stuðning við Íraksstríðið.

[10:31]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í gær gaf hæstv. forsætisráðherra út lýsingar sínar á þeim tildrögum sem leiddu til þess að Ísland, eða öllu heldur forustumenn í ríkisstjórn Íslands lýstu yfir stuðningi við innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak. Margvíslegar upplýsingar sem þar komu fram eru þess eðlis að það er algjörlega nauðsynlegt að ræða þær í þessum sal við hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra hefur hins vegar ekki tök á því að vera hér viðstaddur. Hann er úti á landi og ég ætla þess vegna ekki í neina efnislega umræðu um þetta en óska hins vegar eftir því við hæstv. forseta að til þess að greiða fyrir því að við í stjórnarandstöðunni getum rætt þessi alvarlegu mál við hæstv. forsætisráðherra hlutist hæstv. forseti til um það að síðar í dag verði boðað til nýs fundar eftir að hæstv. forsætisráðherra er kominn frá Ísafirði. Hann er á leiðinni þaðan núna og þá getum við rætt þessi mál við hann og hreinsað loftið eftir atvikum, ef það er þá hægt. Þetta er ósk okkar í stjórnarandstöðu, frú forseti, og okkur þætti vænt um ef hægt yrði að fá svör við henni.