131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um stuðning við Íraksstríðið.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka forseta fyrir þessa viturlegu ákvörðun, og sanngjörnu. Ég held að öll rök mæli með því að okkur gefist kostur á að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þetta efni, og þótt fyrr hefði verið. Það er búið að vera bagalegt að hæstv. forsætisráðherra hefur valið að ráðstafa tíma sínum annars staðar en hér í þinginu þessa viku. Við höfum heyrt frá honum úti á landi, á viðskiptaþingi og víðar þar sem hann hefur jafnvel verið að senda þingmönnum tóninn eða ræða mál sem á sama tíma hafa verið til umfjöllunar á þinginu. Svona er þetta. Eftir að hæstv. forsætisráðherra kom úr skíðaleyfi sínu hefur hann valið að ráðstafa tíma sínum annars staðar en hér á þingi.

Það er því ekki seinna vænna en að við sjáum framan í hæstv. forsætisráðherra hér á þingi eftir hádegið og eigum þess kost að ræða við hann, m.a. þau ummæli sem hann lét falla í fréttaviðtölum í gærkvöldi um aðdraganda hinnar dæmalausu ákvörðunar um stuðning Íslands við Íraksstríð. Ég fagna því og þakka forseta fyrir viðbrögðin.