131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[10:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá skýrslu um stöðu geðheilbrigðismála sem hann flutti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, óskaði ásamt þingflokksformönnum hinna stjórnarandstöðuflokkanna eftir skýrslunni frá hæstv. ráðherra í kjölfar utandagskrárumræðu minnar við ráðherra 14. október um stöðu geðsjúkra og þjónustu við þá.

Ýmislegt hefur verið gott gert eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra í skýrslunni, ýmislegt annað í farvatninu og ýmis vinna í gangi hjá hæstv. ráðherra. Það er gott að heyra að hann tekur ástandið í málaflokknum alvarlega og beitir sér fyrir auknu fé til hans.

Félagasamtök, einstaklingar og hópar hafa komið að þessum málaflokki í auknum mæli með athyglisverðar nýjungar. Ég fagna því sérstaklega. Geðræktarverkefnið, Notandi spyr notanda, gæðaátak geðsjúkra, Rauði krossinn, Klúbburinn Geysir, Geðhjálp — svona mætti lengi telja. Þetta framtak er mjög dýrmætt og má ekki vanmeta. Umræðan er líka öll opnari eins og hæstv. ráðherra benti á og það er mjög jákvætt.

Markmið okkar í heilbrigðisáætlun til 2010 er að bæta aðgengi og fjölga meðferðarúrræðum í geðheilbrigðisþjónustunni. Þarna þarf heldur betur að taka til hendinni, enn frekar en nú er gert. Sem dæmi um ástandið liggja fyrir í dag, þann 10. febrúar, samtals 390 beiðnir á geðsviði um meðferð á Reykjalundi. Í október nefndi ég í ræðu minni að þar biðu 380 sjúklingar og þar á hefur lítil breyting orðið. Biðin er á annað ár. Enn er líka algengur biðtími eftir tíma hjá geðlækni 3–5 mánuðir en vonandi lagast það á næstu mánuðum í kjölfar aðgerða ráðherra. Göngudeildarúrræði vantar tilfinnanlega enn þá þrátt fyrir viðbótarfjárveitingar og sömuleiðis meðferðarúrræði með lyfjagjöf og eftirfylgni.

Staðan hjá skólabörnum með geðraskanir er mjög slæm. Þar þarf verulegar úrbætur, þar vantar allar skilgreiningar á öllum þremur þjónustustigunum. Ráðgjafarþjónustan er lítil sem engin fyrir þennan hóp, löng bið er eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar og lítil sem engin eftirfylgni þegar börn koma þaðan út. Það er auðvitað afleitt ástand. Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að börn sem glíma við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir geti átt erfiða framtíð fyrir höndum ef ekki tekst að grípa skjótt inn í vanda þeirra með viðeigandi úrræðum. Erfiðleikar í skóla, skortur á jákvæðum félagstengslum vegna lítillar samskiptafærni, brostin fjölskyldutengsl, aukin hætta á vímuefnanotkun og líkamleg og andleg vanlíðan eru allt þekktar afleiðingar hegðunar- og geðraskana. Skapast getur vítahringur sem erfitt verður að rjúfa ef ekki verður brugðist við tímanlega. Allir tapa þegar svo illa tekst til, barnið sjálft, fjölskylda þess og samfélagið í heild.

Ég tek heils hugar undir þetta og legg áherslu á hættuna á vímuefnaneyslu og það að börnin leiðist út í glæpi ef ekki hefst meðferð snemma. Markmiðin í heilbrigðisáætlun til 2010 er að geðheilbrigðisþjónustan nái til 2% barna á aldrinum 0–18 ára óháð búsetu. Þar er enn nokkuð langt í land. Við erum enn undir 1% að öllum líkindum, kannski eitthvað um 0,7%, en ég virði svo sannarlega viðleitni ráðherra með teyminu á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi sem er reyndar tilraunaverkefni. Ég fagna því teymi sannarlega, mikil þörf er fyrir það og hefur verið í nokkurn tíma en við verðum auðvitað að gera betur, og ég spyr hæstv. ráðherra: Er áformað að koma slíkum teymum á í öðrum heilsugæslustöðvum, og hvenær þá? Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt starf og brýnt að efla það.

Hæstv. ráðherra hefur verið að reyna að ná niður lyfjakostnaði ríkisins sem er virðingarvert. Í þessum geira, geðheilbrigðisgeiranum, hefur lyfjanotkun barna aukist geigvænlega og það er að hluta til vegna þess að önnur úrræði eru ekki í boði. Lyfjanotkun hjá börnum með geðraskanir hafa áttfaldast á fimm árum. Danskur sálfræðingur sem var hér á dögunum benti á að lyf væru skammtímalausn hjá börnum og að þau réðust ekki að rótum vandans þótt þau slægju á einkennin. Hann hvatti okkur Íslendinga til að nota annars konar meðferðir vegna geðraskana barna en lyfjameðferð. Við eigum að líta til reynslu nágrannaþjóða okkar og læra af henni. Fréttir eins og við heyrðum á dögunum um að 10% fimm ára barna séu með geðraskanir og að ársgömul börn séu á þunglyndislyfjum eru ógnvænlegar.

Við ætlum að auka meðferðarúrræðin fyrir 2010. Þá má minna á þá alvarlegu stöðu að það vantar algjörlega úrræði fyrir börn með miklar geðraskanir. Það er staðreynd í dag og við það verður ekki unað. Norðmenn hafa sett geðheilbrigðisþjónustu við börn í forgang og þeir bjóða upp á ókeypis þjónustu og hafa náð að meðhöndla 3% barna á meðan við erum enn þá undir 1%.

Vinna hefur verið í gangi í heilbrigðisráðuneytinu og tillögugerð um samþættingu eða samhæfingu þjónustunnar, greindar helstu brotalamir og tillögur til úrbóta um hver skuli veita hvaða þjónustu. Það er mjög mikilvægt að þessi vinna fari að skila sér svo ástandið skáni. Við vitum að þjónustu vantar og ákvörðun um það hver skuli veita hvaða þjónustu er líka ekki til staðar. Á meðan svo er líða börnin. Ég minni á að þó að fjárveitingar séu góðar leysa þær ekki allan vanda því skipulagið verður að vera í lagi.

Ég vil nefna í þessari umræðu stöðu fjölskyldunnar sem þarf að styrkja, en staða hennar hefur veikst á undanförnum árum. Það er mikilvægt að hún geti lagt sitt af mörkum til að bæta ástandið og henni verði gert kleift að taka á þessum heilbrigðisvanda sem hrjáir fleiri börn hér á landi en í nágrannalöndunum.

Við ætlum að fækka geðröskunum um 10% og sjálfsvígum um 25% samkvæmt heilbrigðisáætlun sem við samþykktum á Alþingi og gildir til ársins 2010 eins og ég hef áður nefnt hér. Til þess þarf átak og til þess þarf stefnumótunin að vera í lagi.

Ég vil nefna annan stóran heilbrigðisvanda sem er þunglyndi og annar geðrænn vandi vegna offitu sem farin er að hrjá bæði börn og fullorðna. Það er mál sem þarf að taka á á heildstæðan hátt.

Það eru að verða miklar samfélagsbreytingar í þjóðfélagi okkar sem hafa ýmsar geðraskanir í för með sér og fá þau börn sem líða fyrir það ekki meðhöndlun sem skyldi í heilbrigðisþjónustunni. Börn með flókin fjölskyldumunstur sýna meiri þunglyndiseinkenni svo dæmi sé tekið um þetta, en það sýna nýjustu kannanir.

Ég vil líka nefna hér menntunarmál geðsjúkra og átak í að koma geðsjúkum út í lífið aftur eftir meðferð. Um slíkt má ekki ríkja óvissa eins og gerðist í vetur vegna verkefnis Fjölmenntar og Geðhjálpar. Það er ólíðandi ástand fyrir svo viðkvæman hóp að þurfa að búa við óvissu um framtíð sína í þeim efnum.

Ég hef nokkuð minnst á það hér í máli mínu, virðulegi forseti, að það vanti heildarstefnumótun í málaflokknum þótt vinna sé í gangi hjá hæstv. ráðherra og ég fagna því að hann ætlar að taka á þessum málum sérstaklega á næstunni. Ég fagna einnig undirritun hans fyrir okkar hönd þann 14. janúar í Helsinki þar sem hann undirritaði yfirlýsingu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til næstu 5–10 ára ásamt 52 öðrum ráðherrum í Evrópu að frumkvæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og ég heyri á hæstv. ráðherra í skýrslu hans að hann ætlar að halda áfram þeirri vinnu. Í þessari áætlun er byggt á 12 meginatriðum, svo sem mannréttindum geðsjúkra, baráttu gegn fordómum, að færa meðferð af stofnunum og út í samfélagið, menntun starfsfólks í þessum heilbrigðisgeira og því að færa meira vald til notenda þjónustunnar og aðstandenda þeirra. Hæstv. ráðherra sagði að þetta mundi hafa áhrif á þróun geðheilbrigðismála hér á landi. Ég fagna því en vil spyrja hæstv. ráðherra í lok máls míns:

Hvenær hyggst hann fara í þá vinnu? Hann sagði hér í skýrslunni að hann mundi gera það á næstunni. Hvenær á næstunni og hvernig hyggst hann koma þessari geðheilbrigðisáætlun í framkvæmd? Hverjir verða kallaðir til? Hvernig verður þessari vinnu hagað?

Hér er mikilvægt verk sem bíður og ég hef miklar væntingar til þess að það komi sem fyrst í framkvæmd. Ég vil í lokin þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirferð sem hann fór með í skýrslu sinni áðan.