131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[11:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil líkt og aðrir hv. ræðumenn þakka fyrir þessa umræðu, þakka fyrir skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra sem var allrar athygli verð. Það sem vekur kannski mesta athygli manns í umræðunni núna eru þær nýju yfirlýsingar frá ráðherrafundinum í Helsinki.

Það eru veruleg tíðindi að ráðherrarnir skuli nýverið hafa ritað undir, ekki bara viljayfirlýsingu, heldur líka beina tímasetta aðgerðaáætlun í málaflokknum. Það skiptir verulegu máli að aðgerðaáætlun þeirri verði framfylgt og hún verði samþættuð þeim áætlunum sem við vinnum eftir nú þegar og er ég þá fyrst og fremst að tala um okkar gildandi heilbrigðisáætlun til 2010.

Hv. þingmenn hafa bent á ákveðna ágalla í okkar gildandi heilbrigðisáætlun, kannski sérstaklega hvað varðar málaflokk um málefni geðsjúkra. En eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur erum við búin að setja okkur það markmið að við ætlum að fækka geðröskunum um 10% fyrir árið 2010 og sjálfsvígum um 25% fyrir árið 2010. Rétt er að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig miði í þessum málum því það er skoðun margra og hefur komið fram í umræðunni að hér séu kannski óraunhæf markmið eða aðferðirnar sem við beitum til að ná þessum markmiðum séu ekki að gefa nægjanlegan árangur. Því væri rétt að inna hæstv. ráðherra eftir því á hvern hátt hann telji miða í þessum málum.

Ég átti þess kost í vikunni sem leið að sitja hluta af afar athyglisverðri ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík um hegðunarvanda og geðraskanir barna og unglinga. Undirtitill þessarar ráðstefnu var Forvarnir, meðferð og samþætting þjónustu. Ráðstefnan var haldin á vegum Barnaverndarstofu, barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss, Miðstöðvar heilsuverndar barna og landlæknisembættisins. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að það sem ég náði að hlusta á af þeim fyrirlestrum sem þarna voru haldnir var afar athyglisvert. Mig langar sérstaklega til að gera í máli mínu grein fyrir nokkrum sjónarmiðum sem komu fram í erindi Tore Andreasen, sem er starfandi sálfræðingur í Noregi, en hann fjallaði um það hvað virkaði í meðferð hegðunarvanda og geðraskana hjá börnum fyrst og fremst og hvað ekki. Reyndar fjallaði hann ekki bara um börn, hann fjallaði líka um fullorðna geðfatlaða. Hann miðaði við eða gekk út frá rannsóknum, alþjóðlegum rannsóknum, sem gerðar hafa verið, sérstaklega um meðferð barna á stofnunum.

Helstu áhersluþættirnir sem Norðmenn eru núna í sínum nýju starfsháttum að draga fram en komið hefur fram í máli þeirra sem hafa talað á undan mér að það eru nýjungar í gangi í Noregi sem er alveg nauðsynlegt að við gefum verulegan gaum að. Samkvæmt upplýsingum Tores Andreasens skiptir heildarsýnin mestu máli, þ.e. sú nálgun sem kerfið gerir ráð fyrir að sé þegar upp kemur vandamál af geðheilbrigðislegum toga. Þá þarf strax á fyrsta degi að líta til þriggja þátta við upphaf meðferðar, þ.e. þriggja þátta að undanskildum sjúklingnum eða einstaklingnum sem á við erfiðleikana að stríða. Það þarf að horfa til fjölskyldu. Það þarf að horfa til vina og vinahóps og horfa þarf til skólans. Það er algjörlega nauðsynlegt að samþætta þessa þrjá aðila, þessa þrjá hópa, inn í meðferð einstaklingsins frá fyrsta degi.

Ég held að bara þetta atriði sé eitthvað sem við þurfum að taka í ríkara mæli inn í okkar nálgun á þessum málum. Ég held að þetta tilheyri endurskoðun okkar, nauðsynlegri endurskoðun á hugmyndafræðinni sem við vinnum eftir. Það hefur margoft verið leitt í ljós með rannsóknum að ekki nægir að einstaklingurinn einn og sjálfur fái meðferð því það er svo margt annað sem mótar hans vanda.

Í Noregi hafa verið settar á stofn nýjar stofnanir sem eru að innleiða þessar nýju aðferðir og þær ganga út frá því að byrjað er á meðferð inni á heimili viðkomandi einstaklings, sérstaklega ef um börn er að ræða. Þar er ástand mála greint. Þar fer greiningin fram. Síðan ef úrræðin eru ekki næg á heimilinu, í meðferð sem fram á heimilinu er gripið til stofnanavistunar.

Það sem mér þykir athyglisverðast í þessum upplýsingum sem komu fram á umræddri ráðstefnu frá Noregi varðandi innlagnameðferð er að henni fylgir í öllum tilfellum skilgreind eftirmeðferð. Það er ekki hægt að hugsa sér lengur í Noregi meðferð geðsjúkra á stofnunum nema skilgreind eftirmeðferð fylgi. Ég lít á það sem svo að þetta sé eitt af þungavigtaratriðunum sem við þurfum líka að taka til meðferðar hér, því ástand mála í okkar ranni er þess eðlis að við höfum ekki haft bolmagn til að sinna eftirmeðferð.

Við þekkjum eflaust flest í þessum sal dæmi um börn og unglinga með geðraskanir sem hafa samt sem áður verið að stunda nám í almennum grunnskólum, vegna þess jú að við rekum ákveðna menntastefnu sem gengur út frá skóla án aðgreiningar, en við vitum að geðsjúk börn eiga verulega erfitt uppdráttar innan skólakerfisins, í skólunum sjálfum. Það helgast að hluta til af því að stuðningsfulltrúar sem þessum einstaklingum eru ætlaðir endast illa í störfum. Ástæðan er auðvitað sú að starfið er afar erfitt og ekki er gert ráð fyrir að menntaðir einstaklingar sæki í þessi störf. Þetta eru láglaunastörf sem mjög erfitt er að halda fólki í vegna þess að álagið á viðkomandi einstaklinga er einfaldlega of mikið.

Auðvitað eru þeir sjúklingar eða þau börn og unglingar sem þurfa á svona stuðningsfulltrúum að halda missett, veit ég það vel, en í öllu falli eru of mörg tilfelli alvarlegra dæma um að stuðningsfulltrúarnir tolla ekki í starfi sínu, einstaklingarnir halda áfram í skólunum, bekkirnir og einstaklingarnir sjálfir þrífast illa saman af þessum sökum vegna þess að stuðningurinn er ekki nægur; úrræðin eru ekki næg.

Í þessum málaflokki er alveg ljóst að við verðum að taka til hendinni og viðhafa nýjar aðferðir, búa til nýja sýn, stefna inn á nýjar brautir, nýja hugmyndafræði í þessum efnum. Við þurfum að sameina kraftana við að móta heildstæða stefnu. Mér finnst allt of mikið bera á því að við séum að stofna til átaksverkefna eða tilraunaverkefna, eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann getur um alls kyns verkefni sem fá fjármuni á aukafjárlögum. Þetta er auðvitað ekki nógu góð stefna. Þetta er ekki hluti af þeirri heildstæðu mynd sem við viljum sjá. Við erum ekki að nýta alla hæfustu einstaklingana okkar til þess að yfirsýnin verði sem best.

Ég legg því mesta áherslu á að við endurskoðum þá hugmyndafræði sem unnið er eftir í þjónustu og meðferð við geðsjúka. Þar þurfum við að líta til hluta eins og þjálfunar starfsfólks og til þess þáttar sem ræðumenn á undan mér hafa nefnt, lyfjaþáttarins. Það er verulega umhugsunarvert þegar hæstv. heilbrigðisráðherra upplýsir að á ári niðurgreiði Tryggingastofnun geðdeyfðarlyf um 700–800 millj. kr. og það jafngildi tveimur þriðju hlutum af rekstri geðdeildar eða geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Bara staðreynd á borð við þá vekur til umhugsunar um hvort vægi lyfjanna í meðferðinni sé ekki orðið fullmikið og hvort ekki sé orðið verulega aðkallandi að horfa þar til annarra leiða.

Það vill svo til að í gær átti ég samtal við hæstv. heilbrigðisráðherra um annars konar meðferðarúrræði, þ.e. listmeðferð. Listmeðferð er sjálfstætt meðferðarform sem hentar afar vel fyrir geðsjúka, fyrir börn og unglinga með geðraskanir og hegðunarraskanir og fyrir þann hóp einstaklinga sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi líka, fyrir fanga. Í morgun var staddur í heimsókn hjá allsherjarnefnd Alþingis nýr yfirmaður fangelsismála í landinu, Valtýr Sigurðsson, og tók hann m.a. meðferðarúrræði fyrir fanga til umfjöllunar. Við ræddum aðeins um möguleika á annars konar úrræðum fyrir fanga, t.d. listmeðferð, sem hefur reynst afar vel í fangelsum í nágrannalöndum okkar. Ég hvet því hæstv. heilbrigðisráðherra til að taka til skoðunar, alvarlegrar skoðunar, þau öflugu meðferðarúrræði sem til eru, sem þekkt eru í nágrannalöndum okkar, sem við höfum ekki verið að nýta okkur sem skyldi.

Af því ég nefni fanga læt ég það verða lokaorð mín í þessum umræðum, hæstv. forseti, að vekja athygli hæstv. heilbrigðisráðherra á því að meðferð fanga þarf kannski ekki endilega að fara fram inni í fangelsunum. Ég bið hæstv. heilbrigðisráðherra að hugleiða hvort ný öryggisgeðdeild á Kleppi geti ekki jafnframt rúmað meðferð fyrir geðsjúka fanga og hvort það sé ef til vill þegar öllu er á botninn hvolft áhrifaríkara og skili betri árangri en hitt að þjónusta geðsjúka fanga í fangelsunum.