131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrrh.

[11:47]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ár eftir ár virðast málefni geðsjúkra einstaklinga vera í uppnámi og við heyrum meira að segja af ófremdarástandi í málefnum geðsjúkra barna og unglinga. Eins og ég hef áður bent á er nauðsynleg þjónusta við geðsjúka einstaklinga hluti af grunnskyldu ríkisvaldsins og á að vera mun ofar í forgangsröðuninni en jarðgöng, sendiráð, búvörusamningar eða gæluverkefni ráðherra. Framlög til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans eru litlu hærri en það sem sendiherrabústaðurinn í Berlín kostaði. Sjálft sendiráðið í Berlín fékk hins vegar tæplega þrisvar sinnum hærri upphæð en BUGL.

Ég bendi á þetta vegna þess að þetta kemur allt úr sama potti og því er þetta spurning um forgangsröðun. Á hverjum tíma glíma um 50 þús. Íslendingar við geðraskanir af ýmsum toga. Um fimmta hvert barn í landinu er talið eiga við geðheilsuvandamál að stríða og fleiri einstaklingar fremja sjálfsvíg árlega hérlendis en þeir sem deyja í umferðarslysum.

Af hverju erum við þá með margra mánaða biðlista eftir geðheilbrigðisþjónustu? Ég bara spyr, hæstv. heilbrigðisráðherra.

Formaður Félags foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna og unglinga hefur ítrekað staðfest að kerfið hafi einfaldlega brugðist og í raun hafi ríkt ófremdarástand í geðheilbrigðismálum barna og unglinga hér á landi. Hann telur að úrræði fyrir börn og unglinga skorti á öllum þjónustustigum og að Ísland standi hinum Norðurlöndunum langt að baki. Hér á landi er gert ráð fyrir að 0,5% barna með geðheilsuvandamál fái viðunandi þjónustu en hann benti á að annars staðar á Norðurlöndunum væri þetta hlutfall 2%, þ.e. fjórum sinnum hærra.

Eins og fram kemur í nýbirtri skýrslu verkefnisstjóra hæstv. heilbrigðisráðherra um samþættingu þjónustu við börn með geðraskanir eru meðferðarúrræði af skornum skammti og fjármagn takmarkað í þennan málaflokk. Þarna eru birtar fjölmargar tillögur en þeim var skilað til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir mörgum mánuðum, þ.e. í lok ágúst, og er því ástæða til að kalla eftir efndum og ítarlegri skoðun ráðherrans á þeim tillögum sem þar er að finna. Hann ætti að hafa haft nægan tíma til að fara yfir það í ljósi þess hvenær hann fékk skýrsluna.

Eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur margoft bent á er sömuleiðis nauðsynlegt að taka til skoðunar stöðu þeirra barna á grunnskólaaldri sem búa við alvarlegan geðrænan og félagslegan vanda. Börn með geðrænan vanda eiga að njóta kennslu á grunnskólastigi eins og lög gera ráð fyrir en samhliða verða þau að fá meðferð við sjúkdómi sínum. Eins og staðan er í dag er þessu þó ekki sinnt eins og það ætti að vera. Af hverju er það svo, hæstv. heilbrigðisráðherra?

Börn og unglingar með geðraskanir eru þó ekki eini hópurinn sem þarf úrbætur. Enn eru alvarlegar brotalamir þegar kemur að sakhæfum geðsjúkum einstaklingum. Sogn er gert fyrir ósakhæfa fanga en fangelsin eru ekki gerð fyrir einstaklinga með geðræn vandamál. Þrátt fyrir það eru samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun um 6–8 slíkir einstaklingar innan fangelsisins. Við þurfum sérstakt úrræði fyrir þessa fáu einstaklinga en nýja deildin á Kleppi ku ekki taka á móti geðsjúkum föngum. Vandinn verður því áfram til staðar.

Sömuleiðis hefur verið bent á þá fáu einstaklinga sem þurfa sérstaka hjálp og stunda t.d. þrálátt einelti á hendur sínum nákomnustu. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar sagði nýlega að þessi hópur virtist hvergi eiga heima í kerfinu. Af hverju er það svo, hæstv. heilbrigðisráðherra?

Við þurfum að leysa þessi vandamál. Við eigum að auka þátttöku og aðkomu geðsjúkra að ákvarðanatöku sem hefur áhrif á líf þeirra og meðferð. Við eigum að virkja starfsemi eins og klúbbinn Geysi og Hugarafl og semja við sálfræðinga. Við eigum að efla geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar um allt land og auka þjónustu utan stofnana ásamt því að einfalda kerfið til muna svo að geðsjúkir geti fengið þjónustuna á einum stað. Við þurfum að auka teymisvinnu og eftirfylgni, eyða biðlistum og útrýma fordómum.

Við þurfum að rannsaka þunglyndi eldri borgara. Ég hef lagt fram þingmál um að það sé nauðsynlegt í ljósi þess að þunglyndi eldri borgara er að einhverju leyti falið hér á landi, er ógreint og hefur ýmsa sérstöðu gagnvart öðru þunglyndi.

Frú forseti. Við uppflettingu í þingtíðindum kemur í ljós að það er nánast árlegur viðburður að rætt sé á Alþingi um hagsmuni geðsjúkra og þær brotalamir sem sá flokkur Íslendinga býr iðulega við. Það segir ýmsa sögu um málið.

Ég vona að ég muni upplifa þann dag einhvern tíma að ekki verði lengur nauðsynlegt að ræða þetta mál á þingi og það uppnám sem málefni geðsjúkra virðast ætíð vera í. Leysum þessi mál í eitt skipti fyrir öll.