131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:12]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka heilbrigðisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um geðheilbrigðismálin og ástandið í þeim. Jafnframt þakka ég fyrir mjög málefnalega og fína umræðu sem hér hefur farið fram. Hér er líka hugmyndaauðgi sem hæstv. ráðherra getur nýtt sér í framhaldi af vinnunni í ráðuneytinu.

Það er auðvitað að ýmsu að hyggja í þessum málaflokki eins og hér hefur komið fram en ég vil kannski gera að meginumræðuefni stöðu barna með geðrænan vanda og þar ber hæst staða þessa hóps t.d. í skólakerfinu.

Ég vil líka minna á mjög áhugaverða þingsályktunartillögu sem hér hefur legið frammi frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur sem fjallar m.a. um sérkennslu- og meðferðardeild fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda. Slíkt er nefnilega afar mikilvægt. Sumir mundu kannski segja að slík sérgreining væri örlítið afturhvarf en ég held að taka þurfi á þessum vanda á mörgum stöðum vegna þess t.d. eins og þar segir:

„Hefðbundinn skóli með ákveðinni stundaskrá, hefðbundinni lengd kennslustunda og frímínútna er kerfi sem gagnast nemendum með geðrænan eða félagslegan vanda illa eða alls ekki. Jafnframt líður sumum þessara ungu nemenda illa vegna þess flókna og síbreytilega félagslega veruleika sem skólinn endurspeglar. Slök félagsfærni, léleg sjálfsmynd, ábyrgðarleysi eða árásargirni leiðir til tíðra árekstra við aðra í leik og starfi og samveru með fjölskyldunni. Í verstu tilvikum verða þessir nemendur utangarðsfólk, með enga framhaldsmenntun, háðir fíkniefnum, hneigjast til afbrota, glíma við geðsjúkdóma og með stopula atvinnu. Hætta er á að þeir geti ekki séð sér farborða og haldið heimili á fullorðinsárum. Kostnaður samfélagsins vegna erfiðleika þeirra getur orðið verulegur. Til að reyna að koma í veg fyrir að svo fari þurfa sumir nemendur mikinn sérstuðning og annað umhverfi en þekkist almennt í grunnskólum hérlendis.“

Það er afar mikilvægt að öll kerfi vinni að tillögum fyrir þennan hóp. Ég vann m.a. að skýrslu vegna ungra afbrotamanna þar sem við í rauninni gátum rakið það að ef gripið hefði verið fyrr inn í það ferli væri búið að fyrirbyggja það til framtíðar.

Margir hafa nefnt þá gagnmerku ráðstefnu sem var um daginn um hegðunarvanda og geðrasakanir ungmenna. Þar kom fram að 10% barna eiga við geðrænan eða félagslegan vanda að etja, ofvirkni og annað slíkt. Talan er afar há en skýringin getur auðvitað verið sú að við erum orðin miklu duglegri að greina, eins og hefur líka komið fram hér. Við erum orðin mjög dugleg að greina og allir vilja greina en það dugar skammt ef engin úrræði eru á hinum endanum og hv. þingmaður Ögmundur Jónasson nefndi þetta meðal annars. Það dugar ekki að vera með ofboðslega fína greiningarvinnu á öllum stöðum ef ekki er hægt að bregðast við því í kerfunum, þá er það til mjög lítils.

Við sjáum þetta mjög oft með jaðarkrakka sem eru ekki í þessum þunga enda. Það skiptir afar miklu máli að t.d. sálfræðingar og félagsráðgjafar geti líka unnið þá greiningarvinnu og sett inn minni háttar stuðning fyrir fjölskyldurnar án þess að þær þurfi endilega að fara allar í hið þunga kerfi. Við þurfum að hugsa mikið í lausnum en ekki endilega í vandamálum. Það er kannski hvað brýnast núna.

Við vitum vel að með því að sinna börnunum sem allra fyrst erum við að fyrirbyggja til framtíðar þannig að þar ættum við auðvitað að setja meira fjármagn inn. Við sjáum líka að heilsugæslan og frumvinnan gegnir þar lykilhlutverki og samstarf við BUGL meðal annars.

Mig langar líka að gera annan hóp að umræðuefni og það eru fangarnir, en nokkrir þingmenn hafa einnig minnst á þá. Það eru ríkar mannúðarástæður til að sinna þeim hópi afar vel. Hann þrífst illa í fangelsunum og illa í vinnu þannig að það er mjög mikilvægt að við mætum þeim hópi.

Að lokum, herra forseti, er þriðja stoðin grasrótar- og notendasamtökin, bæði foreldrasamtök og Geðhjálp. Þar liggur fyrir mikil vitneskja um kerfin og gallana á kerfinu. Ég veit að það er mikill vilji í ráðuneytinu að vinna mjög náið með notendahreyfingunum því þar er púlsinn, þar er fólkið með áhyggjurnar, þar brýtur verulega á og afar mikilvægt að sinna því. En samstarf, samvinna, samþætting, teymisvinna milli ráðuneyta og láta ekki detta milli skips og bryggju er mikilvægast og ég vona að við berum gæfu til þess að vinna áfram á þann hátt.