131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:32]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf frekar til óþæginda þegar ábyrgðin skiptist á milli tveggja ráðuneyta, það er alveg ljóst. En við höfum átt ágætt samstarf upp á síðkastið við félagsmálaráðuneytið og erum að láta fara yfir búsetumál geðsjúkra. Ég tel eðlilegt að búsetumálin, eins og önnur búsetumál fatlaðra, tilheyri félagsmálaráðuneytinu og ég held að það séu engar deilur um það. Við þurfum að ná utan um vandann og vinna að honum á sama hátt og unnið hefur verið að búsetumálum fatlaðra, að veita þeim búsetu í samfélaginu. Við höfum verið með vinnuhóp, eins og fram kom í umræðunni, í þessum málum sem ég vona að ljúki störfum á næstu vikum.