131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:33]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að verið er að vinna í búsetumálum geðfatlaðra á vegum ráðuneytanna og tel það vera af hinu góða. En það er oft þannig að þegar ábyrgðinni er skipt vill fólk lenda á milli stafs og hurðar og ég held að einmitt þessi málaflokkur hafi liðið fyrir að fram til síðustu tíma hafi ekki verið nægjanlega mikið samstarf á milli þessara tveggja ráðuneyta.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra aftur: Hvað telur hann vera í veginum fyrir því að málefni þessa sjúklingahóps, sem er sami hópurinn hvort sem hann fellur undir heilbrigðisráðuneytið eða félagsmálaráðuneytið, falli undir einn ráðherra til að skapa ákveðna samfellu í þjónustu við sjúklingahópinn?