131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Mun eingöngu hópurinn sem sat ráðstefnuna í Helsinki vinna að aðgerðaáætluninni hjá okkur? Ég tel mjög mikilvægt að notendahópar sem víðast að komi að þeirri vinnu og óska eftir því að ráðherra svari þessu.

Ég vil einnig fá svar frá honum í lok umræðunnar: Hvað hyggst hann gera í geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga?

Í síðasta lagi kalla ég eftir svörum frá hæstv. ráðherra um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingum. Heimildin er komin í lög en hefur ekki verið nýtt þrátt fyrir mikla þörf, fyrir utan tilraunaverkefni í heilsugæslunni sem ráðherrann minntist á í skýrslu sinni.

Ég hefði gjarnan viljað fá svör við þessum þremur þáttum frá hæstv. ráðherra áður en umræðunni lýkur.