131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég minni á að í umræðunni kom fram að við eyðum 800 millj. kr. í niðurgreiðslu lyfja. Oft er vísað á lyf vegna þess að önnur úrræði vantar, m.a. viðtalsmeðferð. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að taka á þeim málum og huga að því hvernig hann forgangsraðar fjármagni.

Einnig kom fram að lyfin ráðast ekki að vandanum, sérstaklega hvað varðar börnin með geðraskanirnar, þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að taka á því. Það er mjög mikilvægt að hraða þjónustunni sem vantar við fangana og ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að taka notendahópana inn í umræðuna um áætlunina frá því í Helsinki. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær fer vinnan í gang og hvenær gerir hann ráð fyrir að henni verði lokið hvað varðar yfirlýsinguna og aðgerðaáætlunina frá því í janúar sl.?