131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:40]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil árétta það sem fram kom í máli mínu áðan að það er rangt að málefni geðsjúkra sé forgangsverkefni hjá stjórnvöldum. Ég er heldur ekki viss um að það standist mjög nákvæma skoðun sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að allt sem ríkisstjórnin leggi aukið fjármagn til hljóti að teljast til forgangsverkefna hjá henni.

Það er mjög mikilvægt að skoða málin heildstætt. Ég vakti athygli á því í ræðu minni áðan að hluti geðsviðsins innan sjúkrastofnana landsins hefur farið minnkandi borið saman við aðra þætti. Árið 1996 var það 10,6% hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi eða sambærilegum stofnunum á þeim tíma og komið niður í 8,1% árið 2003. Einnig hefði rýmum fækkað stórlega á árabilinu 1996–2003, um 70 rúm. Á sama tíma fjölgar þjóðinni (Forseti hringir.) hins vegar um 8%. Við þurfum því að sjálfsögðu að skoða málið heildstætt og með tilliti til breytinga almennt í samfélaginu.