131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Geðheilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:48]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Þjónustuþörf geðsjúkra, barna og fullorðinna með geðraskanir varðar öll ráðuneytin. Öðru fremur er oftast talað um heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti en hvað börn og unglinga varðar megum við heldur ekki gleyma þýðingu skólans og þjónustu við þessi börn og unglinga í nærþjónustunni.

Hafandi í huga þær miklu framfarir og þá aukningu sem hefur orðið á heilbrigðisþjónustu við fanga finnst mér standa út af borðinu að við gerum ráð fyrir að geðsjúkir fangar geti afplánað refsingu sína á þar til gerðri stofnun og vil spyrja hæstv. ráðherra um það. Við eigum annars vegar þegar við tölum um börn og unglinga við hóp sem telur þúsundir en í þessu tilviki skilst mér að um sé að ræða um sex eða átta einstaklinga að jafnaði.

Þrátt fyrir aukna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu sem sinnt er af heilsugæslustöðvum, Sogni og fleirum tel ég brýna þörf á að koma þessu á fót og gerði ráð fyrir að það yrði á Kleppi.