131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[13:06]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir það með hæstv. ráðherra að auðvitað verða rökin að vera sterk fyrir þeim breytingum sem ég var hér að tala um eða þeim atriðum sem ég var að benda á. Ég tel að þau hafi nú komið fram í mínu máli, þ.e. að með því að breyta ákvæðinu má halda því fram að líklegra sé að lögin hefðu varnaðaráhrif gagnvart þeirri háttsemi sem frumvarpinu og lögunum er ætlað að beinast gegn.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram út af því sem kom fram í andsvari hæstv. ráðherra að ég var ekki að tala fyrir því, og ég tók það sérstaklega fram, að allar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið aflar sér komi fram í niðurstöðum þeim sem það birtir. Ég tók það sérstaklega fram að ekki mætti við slíka birtingu ganga lengra en nauðsyn krefur og ég vil alls ekki, svo það sé alveg á hreinu, að með þessari birtingu sé gengið gegn hagsmunum fyrirtækjanna, viðskiptahagsmunum og öðru því sem leynt þarf að fara. Ég er einfaldlega að tala um þá meginreglu, og það getur styrkt löggjöfina og frumvarpið að það verði meginregla, að niðurstöðurnar séu birtar en að ekki sé einungis kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til þess að birta niðurstöður sínar.