131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:36]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Enn á ný kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson hér upp á Alþingi til að vekja á sér athygli og þráspyrja mig um atburði sem urðu fyrir tæpum tveimur árum. Hann sjálfur man svo ekki einu sinni það sem hann hlustaði á í gærkvöldi.

Hann fer hér með rangt mál. Ég sagði í þessu viðtali að það væru engin bein tengsl. Ef það kemur hv. þingmanni á óvart að það sé náið samstarf í varnarmálum milli Bandaríkjanna og Íslands er ég furðu lostinn yfir því.

Hann fer líka með rangt mál í hinu atriðinu. Vill ekki hv. þingmaður lesa viðtalið áður en hann kemur hérna næst upp? (ÖS: Ég er með það hér.) Það er greinilegt að þá kann þingmaðurinn ekki að lesa. (Gripið fram í.) Hann getur ekki ætlast til þess að hann geti haldið áfram að þráspyrja mig um þetta mál og muna ekki einu sinni sjálfur það sem hann hlustaði á í gærkvöldi.

Svo vil ég benda hv. þingmanni sem er svona áhugasamur um fortíðina á eitt — það virðist vera sú verkaskipting milli hans og varaformannsins í flokknum að hann sjái um fortíðina en varaformaðurinn um framtíðina. Það virðist vera þannig (Gripið fram í.) — ég hef verið úti um land undanfarna daga. (Gripið fram í.) Er það nú slæmt, að fara um landið? Fólkið í landinu er ekki að tala um þetta mál, það hefur engan áhuga á þessu máli og engan áhuga á því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar hér um. Fólkið í landinu er upptekið af öðrum málum.

Vill ekki hv. þingmaður fara á fundi með fólkinu í landinu til að fá tilfinningu fyrir því hvað það er sem þetta ágæta fólk hefur áhuga á? (Gripið fram í.) Það hefur áhuga á framtíð sinni, á atvinnumálum, efnahagsástandinu, allt öðrum málum en þessu. Ég ætla að biðja hv. þingmann að hætta þessari vitleysu.