131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:40]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Árásirnar á hæstv. forsætisráðherra út af þessu máli eru með hreinum ólíkindum. Þær bera nú orðið því miður mjög mikinn keim af hinum illvígu innanflokksátökum í Samfylkingunni sem er ástæðulaust að hafi slík áhrif í þingsal.

Auðvitað liggur fyrir að það var rétt að þessum málum staðið. Þeir ráðherrar sem málið heyrði undir tóku ákvörðunina og þeir höfðu auðvitað fullan pólitískan stuðning á bak við sig, bæði í ríkisstjórninni og í þingflokkum sínum. Ella hefði komið til mótmæla (Gripið fram í.) og ella hefðu þeir ekki getað framfylgt ákvörðun sinni. Það liggur alveg fyrir að yfirflugsréttindi, lendingarleyfi og fyrirheit um stuðning við uppbygginguna í Írak eru fullkomlega í takt við það sem áður hefur tíðkast af Íslands hálfu þegar til atburða af þessu tagi hefur komið. Þessi pólitíski stuðningur er því ekki nýlunda, þvert á móti er hann í takt við afstöðu Íslands fyrr á tíð.

Hins vegar er mjög athyglisvert að í þessu máli skuli stjórnandstaðan bara engan veginn geta horft fram á veg, horft fram á veg til uppbyggingarinnar sem þarf að eiga sér stað í Írak, heldur vera sífellt með andlitið í baksýnisspeglinum, horfandi á dagana í kringum 18. og 20. mars fyrir tveimur árum. Þetta er það sem okkur er boðið upp á hér af hálfu þessara ágætu stjórnarandstæðinga.

Síðan reka menn upp stór augu eins og það komi eitthvað á óvart að samvinna Íslendinga og Bandaríkjamanna í varnarmálum hafi eitthvað að segja þegar menn koma með erindi til Íslands, að það skipti þá engu máli. Liggur það ekki alveg fyrir að samstarf þessara þjóða á breiðum grundvelli og sérstaklega varðandi varnarmál hefur auðvitað mikla þýðingu þegar við tökum afstöðu til þess hvernig við bregðumst við erindi af þessu tagi?