131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:49]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, að hefur enginn minnst á kosningarnar, ekki heldur á olíuhagsmuni. Við erum að tala um trúverðugleika ríkisstjórnarinnar og hvort hæstv. forsætisráðherra Íslands fari með rétt mál. Hann má vita það, hæstv. ráðherra, að það er fleira fólk í landinu en það sem situr fundi Verslunarráðsins.

Viðtalið við hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson á Stöð 2 í gærkvöldi er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi fyrir það hve viðtalið er hlaðið mótsögnum. Hann segir málið af slíkri stærðargráðu að óeðlilegt hafi verið að utanríkisráðherra einn hafi komið að því, forsætisráðherrann hlyti að gera það einnig. Síðan má ráða af ummælum hans að málið sé í rauninni svo smátt að þessir tveir ráðherrar hafi ekki einu sinni haft tilkynningarskyldu gagnvart ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga, nokkuð sem stjórnarandstaðan efast stórlega um og telur að um lögbrot hafi verið að ræða og virtir lögfræðingar hafa tekið undir það núna síðustu daga.

Í öðru lagi kemur fram að það er sendiherra Bandaríkjanna sem á í viðræðum við embættismenn um þessa stórpólitísku ákvörðun og þetta er stórpólitísk ákvörðun. Bandaríkjamenn eru á þessum tíma að undirbúa að hunsa vilja Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru að leita eftir stuðningi við tiltekin ríki til að fá þau til vitorðs við sig við einhliða ákvörðun um innrás í Írak og þessar viðræður fara fram á milli embættismanna. Krafan á hendur Íslendingum er sett fram af þeirra hálfu.

Í þriðja lagi kemur fram að það eru eiginhagsmunir Íslendinga, varnarhagsmunir sem þeir kalla, herstöðin í Keflavík sem skiptir þarna verulegu máli og ég spyr: Er það þessi ríkisstjórn og með þessi viðhorf sem vill fara með okkur inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Á að sitja þar undir leppríkisfána? Ég spyr að gefnu tilefni.

Við ítrekum kröfur okkar um að öll gögn komi nú fram í dagsljósið. Þetta mál snýst um trúverðugleika ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og trúverðugleika hæstv. forsætisráðherra Íslands.