131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:52]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að segja að þetta mál sé til umræðu í fyrsta skipti og sannleikurinn er sá að búið er að ræða allar hliðar málsins. Meðal annars hefur mjög verið reynt að gera það tortryggilegt hvernig staðið var að ákvörðuninni um hinn pólitíska stuðning okkar Íslendinga við innrásina í Írak. Það mál hefur margfaldlega verið upplýst og margfaldlega verið rakið og það mál er raunar til sérstakrar meðhöndlunar í utanríkismálanefnd Alþingis sem er hin eðlilega fagnefnd í þessum efnum. Það hefur ekkert nýtt komið fram í því. Bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa síðan verið að ítreka þessa atburðarás (Gripið fram í.) og í raun og veru er ekkert nýtt sem þar kemur fram. Og það er algerlega rangt sem reynt var að halda fram áðan að við værum með ákvörðun okkar um pólitískan stuðning við þetta mál að verða aðilar að stríði.

Hæstv. forsætisráðherra var einmitt spurður um þetta mál í hinu umtalaða viðtali í sjónvarpinu í gærkvöldi og hann svaraði um málaleitan Bandaríkjamanna: „Þeir báðu um pólitískan stuðning.“ Og það er auðvitað kjarni málsins. Það sem við gerðum og ákvörðun okkar laut að var pólitískur stuðningur og það er auðvitað eðlilegur pólitískur stuðningur við stríð sem hafði það að markmiði að hrinda brott einum mesta harðstjóra okkar tíma.

Menn hafa líka verið að reyna að gera tortryggileg ummæli hæstv. forsætisráðherra varðandi tengslin við varnarmálin og ég tel rétt að lesa það úr viðtalinu sem hæstv. ráðherra sagði. Hann segir:

„… það voru engin bein tengsl þarna á milli. Og ég minni nú á að skömmu fyrir kosningar gekk bandaríski sendiherrann á fund þáverandi forsætisráðherra og tilkynnti að það stæði til að taka herþoturnar til baka innan mánaðar.“ Og aftur, virðulegi forseti: „Það voru engin loforð af hálfu Bandaríkjamanna eða skilyrði af okkar hálfu eins og kom nú í ljós síðar þarna rétt fyrir kosningarnar.“

Við sjáum því, virðulegi forseti, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hv. stjórnarandstöðu til þess að reyna að varpa undarlegu ljósi á þetta mál þá kemur auðvitað sannleikurinn alltaf í ljós og það er margbúið að draga þetta fram. (Gripið fram í.) Það er margbúið að útskýra þetta. Þessi mál eru síðan til eðlilegrar umfjöllunar í þingnefnd. Þar verða þau auðvitað leidd til lykta með einhverjum hætti og ég held að það væri eðlilegt að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) reyndu að láta af þeim leiða vana sínum að reyna að þyrla upp moldviðri um mál sem fyrir löngu er búið að útskýra.