131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina og þó fyrr hefði verið að hún kæmist hér á.

Margt hefur gengið okkur Íslendingum í haginn undanfarin ár og áratugi hvað efnahags- og atvinnumál snertir. Samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins með þjóðarsáttinni lagði í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar grunn að þeim stöðugleika sem við höfum búið við síðan. Mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs er ferðaþjónustan og hefur verið um alllangt árabil. Ýmsar greinar samkeppnisiðnaðar og tækni- og þekkingargreinar hafa blómstrað og sjávarútvegurinn hefur haldið áfram að skila sínu. Veikleikarnir eru hins vegar fólgnir í gríðarmiklum erlendum skuldum og þeirri staðreynd að það stefnir í 500 milljarða hallarekstur þjóðarbúsins út á við vegna viðvarandi viðskiptahalla á árabilinu 2004–2010.

Haldi svo sem horfir er næsta víst að Ísland, sem í dag er eitt af þremur skuldugustu löndum heimsins meðal þróaðra ríkja, kemur til með að hampa vafasömu skuldaheimsmeti í lok þessa tímabils.

En hver er staðan í dag varðandi viðfangsefni umræðunnar? Jú, hún er sú að varla líður sá dagur að ekki berist fréttir af erfiðleikum í rekstri útflutnings- og samkeppnisfyrirtækja, uppsögnum starfsfólks o.s.frv. Nokkur nýleg dæmi: „Fimmtán manns sagt upp á Hofsósi“, Morgunblaðið í fyrradag. „Uppsagnir í landvinnslu á Stöðvarfirði og í Þorlákshöfn — Stjórnvöld ýta undir þenslu“, Ari Edwald í viðtali við Fréttablaðið í fyrradag. Allt að 40 störf á Húsavík eru í hættu vegna erfiðleika í rækjuvinnslu, segir Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, í Fréttablaðinu í gær. „Kallar á fleiri gjaldþrot hjá útflutningsgreinum“, fyrirsögn á viðtali við Arnar Sigurmundsson og Ernu Hauksdóttur í Viðskiptablaðinu í gær.

Í öllum tilvikum tilgreina forsvarsmenn viðkomandi fyrirtækja eða talsmenn viðkomandi atvinnugreina hátt raungengi krónunnar sem eina aðalástæðu erfiðleikanna.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í desember farast Herði Arnórssyni, forstjóra Marels, svo orð um áhrif þessa ástands á útflutningsfyrirtæki:

„Mér finnst ótrúlegt skilningsleysi vera á þörfum útflutningsgreina ef menn ætla að sætta sig við þetta,“ og vísar hann þar til orða seðlabankastjóra um að búast megi við langvarandi háu gengi krónunnar. „Tekjur minnka og þetta er mjög slæm staða. Þetta er sérstaklega slæmt varðandi sölu inn á Bandaríkin vegna þess hversu veikur dollarinn er. Þá er líka ljóst að staðan er mjög óþægileg fyrir allar útflutningsgreinar, líka gagnvart öðrum gjaldmiðlum, þar sem krónan er svo sterk.“

Aðspurður hvort búast megi við því að fyrirtæki flytji starfsemi sína úr landi við þessar aðstæður segir Hörður:

„Fyrirtæki hafa verið að fara úr landi. Þar má nefna sem dæmi Hampiðjuna, Plastprent og 66° Norður. Þetta hamlar uppbyggingu hér.“

Með öðrum orðum, við erum að ýta útflutnings- og samkeppnisiðnaði úr landi með þessum aðstæðum og eru þá ónefnd glötuðu tækifærin, störfin sem aldrei verða til, sprotafyrirtækin sem krókna í kulda raungengis langt yfir jafnvægisstigi hárra vaxta og skorti á fé til nýsköpunar innan lands.

Hverjar eru svo skýringarnar á þessu ástandi? Er þetta eitthvað sem ætti að koma á óvart? Alls ekki. Í áðurnefndri umfjöllun Viðskiptablaðsins um það sem þar er kallað í fyrirsögn „Ofurgengi krónunnar og vaxataákvarðanir Seðlabankans í desember síðastliðnum“ sagði Birgir Ísleifur Gunnarsson bankastjóri:

„Menn mega auðvitað búast við háu gengi næstu tvö ár þegar svo gríðarlegar framkvæmdir koma inn í hagkerfið á svona stuttum tíma. Það nemur um 1/3 af landsframleiðslu og allt fjármagnað ýmist með erlendu eigin fé eða lánsfé frá útlöndum. Við slíkar aðstæður er ekkert um annað ræða en að menn megi búast við háu gengi,“ sagði seðlabankastjóri í desember.

KB-banki hélt morgunverðarfund um gengi krónunnar og horfur í þeim efnum í desember. Hann sprengdi utan af sér stóra ráðstefnusalinn á Nordica. Þar var meginskýring á styrkingu krónunnar að undanförnu rakin til mikillar erlendrar lántöku en jafnframt sagt að innflæði vegna stóriðjuframkvæmdanna mundi halda gengi krónunnar uppi árin 2005 og 2006.

Greiningardeild Landsbankans orðar þetta svo í áliti 10. janúar sl. undir fyrirsögninni „Stýrivextir í 10% um mitt ár“:

„Nýhafið ár mun að okkar mati einkennast af vaxandi efnahagsumsvifum. Aukið umfang stóriðjuframkvæmda, breytingar á húsnæðiskerfinu og aukinn aðgangur að lánsfé gæti leitt af sér hratt vaxandi einkaneyslu ef ekki verður brugðist við með hækkun vaxta. Þessu til viðbótar koma áhrif lækkandi skatta á þessu ári og þeim næstu,“ segir greiningardeild Landsbankans og býst við háu gengi krónunnar fram á mitt næsta ár.

Allir eru sammála um að því lengur sem þetta ástand varir þeim mun harkalegra verður bakslagið, þeim mun meiri verður blóðtakan fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar og því meiri hætta verður á verðbólguhrinu og yfirskoti í genginu þegar skriðan fer af stað.

Herra forseti. Það sem við erum einfaldlega að horfast í augu við er herkostnaðurinn af stóriðju- og skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Byggðaaðgerðin mikla sem svo var kölluð af framsóknarmönnum birtist mönnum í formi uppsagnarbréfa á Stöðvarfirði, í Þorlákshöfn, á Hofsósi og víðar. Alvarlegast er að talsmenn iðnaðarins, sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar sjá ekkert annað fram undan en áframhald á þessari þróun, umsvifin færast úr landi, uppsagnir starfsfólks, fleiri gjaldþrot.

Skyldi hæstv. forsætisráðherra nú detta í hug að afgreiða þetta allt saman sem svartagallsraus úr mér? Þá bið ég hann að bregðast við og svara ummælum þeirra ágætu manna sem ég hef hér verið að vitna til, stofnana og seðlabankastjóra. Ríkisstjórnin verður að svara því hvort ætlunin sé að reyna að aðhafast eitthvað eða hvort eigi að láta útflutnings- og samkeppnisgreinar og almennt atvinnulíf í landinu halda áfram að greiða herkostnaðinn af stóriðju- og skattstefnunni. Á að ryðja til hliðar störfum í útflutnings- og samkeppnisgreinum gegnum uppsagnir starfsfólks og gjaldþrot eða með því að ýta starfsemi úr landi til að skapa áframhaldandi rými fyrir stóriðjuframkvæmdir? Á áfram að skipta út störfum í iðnaði, fiskvinnslu og ferðaþjónustu fyrir kínverskar og portúgalskar hendur á fjöllum uppi? Hvernig sér ríkisstjórnin og forsætisráðherra sem yfirmaður efnahagsmála fyrir sér efnahags- og peningastefnuna á næstu missirum? Á að gera eitthvað til að draga úr peningamagni í umferð og þenslu, t.d. að auka á ný bindiskyldu? Verða einhverjar ráðstafanir, beinar eða óbeinar, gerðar til að verja störf og bæta skilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina eða á bara að sjá til hverjir lifa af, eins og ráða mátti af því sem fjölmiðlar höfðu eftir ráðherra á fundi á Akureyri á dögunum?

Leita engar efasemdir á hæstv. forsætisráðherra um að kompásinn sé skakkur, að stjóriðjuumsvifin séu of dýru verði keypt þegar allt er lagt saman, umhverfisspjöllin, útsölu- og afsláttarverðin á rafmagninu og hin stórfelldu, neikvæðu ruðningsáhrif gagnvart öðru atvinnulífi með uppsögnum starfsfólks, gjaldþrotum og glötuðum tækifærum? (Forseti hringir.)

Ef til vill er nærtækasta spurningin þessi: Er hæstv. ríkisstjórn yfir höfuð með einhverja meðvitund í þessum efnum?