131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:08]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Í umfjöllun um efnahagsmál og reyndar öll mál er mjög mikilvægt að hafa heildarmyndina ljósa fyrir sér. Og hver er þessi heildarmynd? Hún er einfaldlega sú að staða efnahagsmála hér á landi er mjög traust. Hagvöxtur er hér meiri en annars staðar, t.d. tvöfalt meiri en gengur og gerist í Evrópu. Atvinnuleysi er líka miklu minna en í flestum öðrum ríkjum. Kaupmáttur heimilanna hefur aukist meira en annars staðar þekkist. Eins er afkoma ríkisins miklu betri en víðast hvar annars staðar sem m.a. hefur orðið til þess að stórlækka skuldir ríkissjóðs. Þetta eru allt saman óvefengjanlegar staðreyndir sem hafa verið staðfestar bæði innan lands og erlendis.

Hver er skýringin á þessari góðu stöðu? Vafalaust má tína til mjög margar skýringar en ein þeirra er áreiðanlega sú að stjórnvöld hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir mjög mikilvægum breytingum í skipulagi hagkerfisins, t.d. með stórfelldri lækkun skatta bæði á fyrirtæki og einstaklinga. Það er mjög mikilvægt. Með því að opna hagkerfið, með því að auka frjálsræði á flestum sviðum, með því að draga úr opinberum afskiptum af atvinnulífinu, ekki síst á fjármálamarkaði.

Ein afleiðing þessara breytinga og þessarar efnahagsstefnu er að erlend stórfyrirtæki hafa ákveðið að ráðast í miklar framkvæmdir hér á landi, m.a. á sviði stóriðju. Hér hafa einnig byggst upp mjög framsækin fyrirtæki, t.d. í ýmsum hátæknigreinum og víðar, sem jafnframt hafa haslað sér völl á erlendri grund. Þessi uppbygging kemur ekkert af sjálfu sér. Hún verður m.a. til vegna þess að stjórnvöld hafa borið gæfu til að skapa hér góð rekstrarskilyrði fyrir þessi fyrirtæki.

Það er hins vegar að sjálfsögðu ekki hægt að horfa fram hjá því að verðbólga hefur færst í aukana upp á síðkastið og sömuleiðis viðskiptahalli. Öllum ber samt saman um að þetta er tímabundið ástand sem má m.a. rekja til þeirra miklu framkvæmda sem hv. þingmaður nefndi, framkvæmda sem standa yfir og þeirra umskipta sem hafa orðið á íbúðalánamarkaðnum. Þannig má rekja um helming verðbólgunnar sem hér hefur verið síðustu tólf mánuði til hækkunar fasteignaverðs.

Það liggur sömuleiðis fyrir að helmingur viðskiptahallans stafar af innflutningi vegna stóriðjuframkvæmdanna. Það er ekkert óeðlilegt að verðbólga taki við sér samhliða auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi, það er ekkert nýtt í hagfræðinni. Við verðum að hafa í huga að við erum að horfa á afar óvenjulegt tímabil í íslenskri hagsögu þar sem einhverjar mestu framkvæmdir sem við höfum nokkurn tíma ráðist í eiga sér stað en á sama tíma ríkir hér uppgangur á flestum öðrum sviðum efnahagslífsins. Við vitum að íslenska hagkerfið er lítið og þess vegna skapa svona aðstæður vissulega ákveðin vandamál í sambandi við hagstjórn.

Þrátt fyrir þetta hafa þeir aðilar sem hafa tjáð sig um efnahagsmál, innlendir sem erlendir, ekki talið hættu á að hér fari allt úr böndunum. Það hefur enginn verið að tala um það. Auðvitað mun reyna á þanþol hagkerfisins og einnig á verðbólguþolmörk Seðlabankans, það er alveg ljóst, en ég er sannfærður um að íslenskt efnahagslíf mun standast þessa þolraun og njóta síðan góðs af því þegar framleiðslan hefst og tekjurnar fara að skila sér. Það er það sem við erum að gera, við erum að auka tekjur okkar til framtíðar sem hv. þingmaður virðist hafa nokkrar áhyggjur af.

Það er síðan óhjákvæmilegur fylgifiskur þessara framkvæmda að gengi íslensku krónunnar hefur styrkst umtalsvert, það er rétt. Þetta hefur jákvæð áhrif á verðlagsþróun til skamms tíma þar sem innflutningsverð á að geta lækkað. Hins vegar er alveg ljóst að þessi þróun gerir útflutnings- og samkeppnisgreinunum erfiðara fyrir í bili auk þess sem hún hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn.

Ég vil ekkert gera lítið úr því að sterkt gengi getur haft neikvæð áhrif á afkomu ýmissa útflutningsgreina. Hins vegar þurfum við hér líka að horfa á heildarmyndina. Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins, sem ekki hafa verið dregnar í efa, er staða sjávarútvegsins í heild talin mjög góð um þessar mundir. Ég hef ekki heyrt neinn draga þessar áætlanir í efa. Ein af ástæðum þess er sú að mikil hagræðing hefur átt sér stað á undanförnum árum, t.d. með sameiningu fyrirtækja. Þannig eru fyrirtækin orðin stærri og öflugri og betur í stakk búin til að mæta tímabundnum erfiðleikum almennt.

Eins hafa skipulagsbreytingarnar á fjármálamarkaði gert fyrirtækjunum kleift að verja sig betur en áður fyrir óvæntum gengissveiflum. Loks er rétt að geta þess að meiri sveigjanleiki er fyrir hendi hvað varðar markaðssetningu afurðanna eftir því sem hentugast þykir hverju sinni.

Allir vita hvers vegna gengi íslensku krónunnar er svona sterkt. Það er mikið innstreymi af erlendu fjármagni, m.a. vegna stóriðjuframkvæmdanna en ekki eingöngu vegna þeirra. Á móti þessum áhrifum eru hins vegar, eins og ég hef nefnt áður, þessar skipulagsbreytingar í hagkerfinu sem gerðar hafa verið á undanförnum 10 árum og hafa styrkt samkeppnisstöðu atvinnulífsins mjög mikið og gert fyrirtækjunum kleift að búa við hærra raungengi en áður. Aukin hagræðing og mikil framleiðniaukning í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum sem er staðreynd hefur þarna svipuð áhrif.

Stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum í þessu sambandi til að halda aftur af þensluáhrifum með því að draga úr opinberum framkvæmdum um sinn. Seðlabankinn hefur líka hækkað vexti eins og vitað er til að halda aftur af verðbólgu og ég held að allir séu sammála um að þetta er tímabundið ástand, verðbólgan mun hjaðna, viðskiptahallinn mun minnka og auðvitað mun það hafa til lengri tíma litið áhrif á gengi krónunnar.