131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:27]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgaf forsætisráðuneytið hefur efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar farið halloka. Þrátt fyrir harða gagnrýni frá samstarfsflokknum í ríkisstjórninni, m.a. frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni hefur hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, ekki með nokkrum hætti brugðist við alvarlegri gengisþróun íslensku krónunnar. Með samþykki forsætisráðuneytisins stýrir Seðlabanki Íslands ferðinni með handaflsaðgerðum sem miklu frekar á erindi við óábyrga spákaupmennsku en ábyrga efnahagsstjórn. Það er deginum ljósara að breyta verður almennum viðmiðunum sem Seðlabanki Íslands styðst við.

Til staðfestingar á þessum orðum mínum er rétt að benda á að þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst með handaflsaðgerðum Seðlabankans hefur gengisstyrkingin ekki lækkað verð á innfluttum vörum og þjónustu svo neinu nemi. Víða erlendis spilar fasteignavísitalan ekkert hlutverk í viðmiðunum og ákvörðunum af þessu tagi. Verðbólgan ræðst fyrst og fremst af tveimur þáttum eða innstreymi og útstreymi fjármagns. Með miklu innstreymi fjármagns til stórframkvæmda á Austurlandi var ljóst að ríkisstjórnin þurfti að sýna varkárni og yfirvegun í kjölfarið en því miður og þvert á móti ákvað ríkisstjórnin að einhenda sér í harðan slag við viðskiptabankana á fasteignamarkaði. Með þessum hætti þurfti stærri flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu að beygja sig undir hinn minni vegna kosningaloforðs frá síðustu alþingiskosningum.

Núverandi gengisstaða íslensku krónunnar er fölsk og stenst því ekki til lengdar. Þetta viðurkenna fyrirtæki og stofnanir á fjármálasviði. Það mun síðar koma glögglega í ljós að núverandi efnahagsstjórn er afar slök um þessar mundir. Afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar gengur ekki upp til lengdar en við núverandi aðstæður fjarar undan útflutnings- og samkeppnisgreinum enda berast nánast daglega fréttir af miklum samdrætti eða jafnvel lokunum fyrirtækja. Ætlar ríkisvaldið og Seðlabankinn að loka augunum fyrir þeirri þróun? Er engin efnahagsstjórn lengur í landinu? Kemur ríkisstjórninni þetta ekki við?

Virðulegur forseti. Gengi krónunnar hefur styrkst um 8% á síðustu mánuðum. Nafnvaxtamunur við útlönd er um 6% og mun að öllum líkindum viðhalda styrkleika krónunnar fram eftir ári. Engu að síður aðhefst ríkisstjórnin ekki nokkurn skapaðan hlut. Þegar skynsamt fólk söðlar um og byggir sér hús gerir það sér grein fyrir mikilvægi þess að auka tekjur sínar svo standa megi straum af framkvæmdunum. Það ákveður að vinna meira og varast eyðslu svo tryggt verði að endar nái saman. Þetta er einföld hagfræði sem virkar, virðulegi forseti. Það er eins og ríkisstjórnin skilji ekki þessa einföldu hagfræði en auðvitað átti hún að spýta í lófana eftir að samþykkt Kárahnjúkavirkjunar lá fyrir og tryggja með ákveðnum leiðum auknar tekjur samhliða minni neyslu. Útflutningsgreinarnar í landinu eru samanlagt að tapa milljörðum á hverjum mánuði vegna afskiptaleysis ríkisstjórnarinnar.

Hundruð starfsmanna hafa misst starf sitt vegna ríkisstjórnarinnar á undanförnum missirum og nægir þar að benda á uppsagnir á Stöðvarfirði, Hofsósi, Þorlákshöfn og víðar. Ef ríkisstjórnin grípur ekki strax í taumana er víst að störfum hundruða ef ekki þúsunda manna til viðbótar verður fórnað í aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

50–60 opinberar nefndir og á annan tug stofnana heyra undir landbúnaðinn í landinu í dag. Sjávarútveginum er miðstýrt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Eins og aðrar útflutningsgreinar á ferðaþjónustan undir högg að sækja. Ríkisstjórnin stendur alvarlega geld gagnvart nýsköpun og þróun hátækniiðnaðar í landinu. Það á ekki að koma neinum á óvart þegar hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson stígur fram á sviðið og þakkar sjálfum sér þá útrás sem vissulega er raunin hjá íslenskum félögum. Honum er það ekki að þakka heldur forvera hans, Davíð Oddssyni.

En hvað um vöxt atvinnulífsins hér heima? Hann má auka gífurlega með breyttum viðhorfum ríkisvaldsins til nýsköpunar. Auka verður aðstoð og þekkingu í hátækniiðnaði. Með réttum áherslum má auka tekjur Íslendinga í sjávarútvegi. Tækifærin og möguleikarnir liggja til allra átta en því miður er ríkisstjórn Íslands dofin fyrir þeim möguleikum og situr föst í stjórnsýslu sem höfðar frekar til atvinnulífs íslensku þjóðarinnar um miðja síðustu öld. Með réttum áherslum getur ríkisstjórnin farið að virkja mannauðinn í stað fallvatna.

Virðulegur forseti. Ég vil koma inn á ræðu hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar hér áðan. Hann talar um að staða efnahagsmála sé mjög traust. Forsvarsmenn útflutningsgreina eru honum ekki sammála. Hann talar um að allt sé á góðu róli í íslensku efnahagslífi. Forsvarsmenn útflutningsgreina eru honum ekki sammála. Hann talar um stórfellda lækkun skatta á einstaklinga í landinu. Skattbyrði einstaklinga í landinu eru í sögulegu hámarki þegar allt er tekið saman. Hann talar um að erlend stórfyrirtæki sjái sér hag í að koma upp rekstri sínum hér á landi. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvað um íslensk fyrirtæki?

Hann talar um að helming verðbólgunnar megi rekja til bólgu á fasteignamarkaði. Hvernig stendur þá á því, virðulegi forseti, að ríkisvaldið einhenti sér í harða samkeppni á fasteignamarkaði? Hann talar um í lokin að aðstæður séu erfiðar vegna þess að hagkerfi okkar sé lítið.

Virðulegi forseti. Máttlaus eru rökin hjá hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni. (Forseti hringir.) Þau endurspegla aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og slaka efnahagsstjórn.