131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:33]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Allt of hátt gengi krónunnar er bein afleiðing af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og stefnu hennar í skattamálum. Ruðningsáhrifin sem Vinstri grænir vöruðu ítrekað við eru að koma fram upp á hvern dag. Aðrar atvinnugreinar eins og sjávarútvegur og ferðaþjónusta eiga í miklum vandræðum vegna þessa. Fólki er sagt upp í stórum stíl. Hæstv. sjávarútvegsráðherra lét lítið yfir því áðan. Hvað ætlar hann að segja við fólkið sem verið er að segja upp á Stöðvarfirði eða á Hofsósi? Hann setur það kannski í nefnd?

Seðlabankinn hefur það eina verkefni að halda verðbólgunni niðri. Til þess hefur hann eitt verkfæri, hækkun stýrivaxta sem keyrir gengisvísitöluna niður og gengi íslensku krónunnar upp. En þessir háu vextir koma einmitt harðast niður á sömu fyrirtækjum og hátt gengi. Ofan á ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar bætist nú gríðarleg hækkun á fasteignaverði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, sem hleypir upp neysluverðsvísitölunni. Ef við lítum á þróunina frá 1997 hefur vísitalan hækkað um 34%, en við skulum líta á ýmsa þætti hennar. Til dæmis hefur innlend matvara aðeins hækkað um 24%. Opinber þjónusta hefur hins vegar hækkað um rúm 42% og er skemmst að minnast rafmagnshækkananna sem fylgja nú í kjölfar markaðsvæðingar rafmagnsins. Vísitala húsnæðiskostnaðar hefur nær tvöfaldast á þessu sama tímabili. Hækkunin er næstum 92%. Það er sú hækkun sem nú keyrir m.a. vísitöluna upp, keyrir gengið upp með fyrrgreindum afleiðingum, og Seðlabankinn eltir með vaxtahækkunum á skammtímalánum.

Hæstv. forsætisráðherra minntist á hagvöxtinn. Stór hluti þessa hagvaxtar er því miður tengdur fasteignaviðskiptunum, húsbyggingum og verslun með fasteignir, en ekki því að atvinnuvegirnir séu að skila svo auknum arði.

Herra forseti. Það er auðvitað óþolandi að útflutningsgreinarnar þurfi að líða fyrir hækkun á fasteignaverði í viðskiptum. Því væri miklu nær að horfa til kostnaðarins við að búa í húsnæðinu, t.d. að nota leiguverð sem mælikvarða til að endurspegla slíka vísitölu.

Á árinu 2004 hækkaði fasteignaverðið um 23% að meðaltali en hækkunin á einbýlishúsum var hvorki meira né minna en 35% og ekki er séð fyrir endann á þeim hækkunum.

Það hefur löngum sýnt sig að vitinu verður ekki komið fyrir þessa ríkisstjórn en þegar fasteignamarkaðurinn í reynd er farinn að stýra verðbólgu ofan á ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna væri þá ekki rétt að taka fasteignaverðið hreinlega út úr neysluverðsvísitölunni og miða við húsaleigu, t.d. eins og gert er í nágrannalöndum okkar? Þannig mætti draga töluvert úr þeim þrengingum sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa verið látnir taka á sig fyrir stóriðjuævintýrið. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Hið almenna atvinnulíf í landinu krefst aðgerða.