131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:43]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er athyglisvert að fara yfir þær umræður sem áttu sér stað árið 2001 þegar hin nýja skipan um Seðlabankann tók gildi. Ef við förum yfir umræðurnar kemur fram mikill samhljómur og samstaða meðal stjórnarmanna og stjórnarandstæðinga um það sem við skyldum keppa að. Þá gerðum við hina miklu breytingu að gera Seðlabankann sjálfstæðan og setja á oddinn verðbólgumarkmið eða verðstöðvunarmarkmið og um það voru allir sammála. En í umræðunum voru menn líka sammála um að það orkaði tvímælis. Það væru mörg önnur sjónarmið í efnahagsstjórninni sem líka þyrfti að huga að og hugsa til, viðskipti við útlönd, nýting framleiðsluþáttanna o.s.frv. (Gripið fram í: Og atvinnustýring.) Og atvinnustýring. Hins vegar tel ég ljóst í dag, þegar ég fer yfir þessar umræður, að það sé útilokað að þeir sem tóku þátt í þeim, þ.e. stjórn og stjórnarandstaða, hafi getað séð fyrir þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag. Því hefur verið lýst í umræðunni núna, herra forseti, farið hefur verið í gegnum það í ræðu og riti á undanförnum vikum. Það vita allir hvað er að gerast. Við vitum öll að hingað hefur flætt gríðarlega mikið erlent fjármagn sem er hér í spákaupmennsku. Það hefur valdið miklu meiri hækkun krónunnar en við áttum von á.

Það sem Seðlabankinn stóð fyrir í desember, þ.e. 100 punkta hækkunin á stýrivöxtunum, hefur haft veruleg áhrif eins og til stóð. Það er ljóst, herra forseti, að það gengi fær ekki staðist með nokkru móti. Íslensk framleiðsla og íslenskt atvinnulíf stendur ekki undir því. Ef við lítum á niðurstöður greiningardeilda allra þriggja stóru viðskiptabankanna, þá eru þeir sammála um að þetta fær ekki staðist. Þeir deila bara um hvenær gengið muni falla, ekki hvort. Og þá er spurningin: Hverjum er verið að skemmta með því að reisa það í þá stöðu sem það fær ekki staðist? Það er bara verið að skemmta skrattanum. Það er gegn hagsmunum bæði fólks og fyrirtækja. Það er því ljóst, herra forseti, að við verðum að horfast í augu við þetta, við verðum að hverfa frá þeim viðmiðunum í verðlagsmálum sem við höfum staðið frammi fyrir. Við berum pólitíska ábyrgð, ríkisstjórnin, á Seðlabankanum. Við verðum að hverfa frá því með einum eða öðrum hætti þó að það kunni að vera slæmt, a.m.k. í bili.

Það hefur verið nefnt að við gætum tekið húsnæðisþáttinn út úr vísitölunni eins og flestar aðrar Evrópuþjóðir gera. Það er ein leiðin. Við getum líka breytt viðmiðuninni og hækkað það. Við getum ekki farið í gegnum þennan skatt öðruvísi en að rýma fyrir framleiðslunni vegna þess að gengi íslensku krónunnar, staða hennar, mun alltaf ráðast af framleiðslumætti Íslands og engu öðru.