131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:49]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna. Það er full þörf á að fara rækilega yfir efnahagsmálin vegna þess að blikur eru á lofti og vissulega réttmætt að hafa miklar áhyggjur af útflutningsgreinunum og háu gengi íslensku krónunnar. Það hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra viðurkennt í umræðunni. En á máli hæstv. forsætisráðherra var að heyra að allt léki í lyndi og ekki þyrfti að hafa áhyggjur af einu né neinu.

Fyrr í dag hélt hæstv. forsætisráðherra því fram að fólk vildi ekki tala um Íraksmálið heldur eitthvað allt annað. Hvað vill fólkið tala um? Nú var hæstv. ráðherra að koma af landsbyggðinni, vildi fólkið þar ekki tala um atvinnumálin? Þrengir ekki einmitt hátt gengi að atvinnumálum á landsbyggðinni? Ég hefði haldið að fólkið vildi tala um það og vildi jafnvel ræða við Framsóknarflokkinn um fleiri aðgerðir flokksins, svo sem eins og hátt rafmagnsverð og eitt og annað.

Að vísu kemur hæstv. forsætisráðherra og ræðir um einhverja hagræðingu í sjávarútveginum. Hvar er sú hagræðing? Ekki er hún í vösum sjómanna. Nei, því miður, því hæstv. forsætisráðherra er guðfaðir kvótakerfisins og hefur gert marga sjómenn landsins að hálfgerðum leiguliðum og því miður ekki að sjá að hin mikla hagræðing hafi aukið áhuga fjárfesta á fyrirtækjunum, því þau eru mörg hver mjög skuldsett og sjávarútvegurinn stendur illa.

Sjálfstæðismenn eru ráðvilltir í umræðunni um efnahagsmál undir leiðsögn Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Þeir kenna Seðlabankanum um að hækka stýrivexti en líta ekki í eigin barm, líta ekki á að það er ekkert tekið á fjárhagi ríkisins. Hann þenst út. Þeir koma og lækka skatta, sem er þensluhvetjandi, og inn streymir fjármagn í íbúðakaup. Þeir taka ekkert á þessu heldur fara bara og kenna öðrum um eins og litlir krakkar, kenna Seðlabankanum um.

Menn eru alltaf að ræða um Stöðvarfjörð og Hofsós. Auðvitað hefur hátt gengi íslensku krónunnar áhrif á atvinnuvegi og atvinnufyrirtæki þorpanna. En því miður hefur kvótakerfi hæstv. forsætisráðherra mun meiri áhrif (Forseti hringir.) enda er vinnslan á Stöðvarfirði að flytjast á Dalvík og ég trúi því að þar sé sama gengi íslensku krónunnar og fyrir austan.