131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:53]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum hér mál sem setur svo sannarlega mark sitt á útflutningsgreinar. Við finnum það á ferðum okkar um landið að fyrirtækin bera sig nokkuð illa yfir genginu. Til að mynda í sjávarútveginum kemur styrking gengis sér afar illa. Nánast allar tekjur fyrirtækjanna eru í erlendri mynt og heggur hækkunin beint í tekjur en hefur minni áhrif á rekstrargjöldin.

Í sumum greinum er möguleiki að bregðast við með lækkun á innkeyptu hráefni. Það er þó mismunandi og til að mynda gerist það mjög hægt í bolfiskinum en gerist hraðar í uppsjávarfiski. Það leikur enginn vafi á því að að það sem kemur sjávarútveginum til bjargar er nokkuð traust staða hans fyrir og það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við hefur hjálpað mikið til. Í því felast möguleikar til hagræðingar og markvissrar skipulagningar sem fyrirtækin eru einmitt að fara í. Við verðum þó að horfa upp á það að sum neyðast þó til þess að ganga lengra og loka óhagkvæmum einingum sem því miður virðist vera óhjákvæmilegt. Við sjáum þetta á nokkrum stöðum á landsbyggðinni og er staðan þar alvarleg og við reynum ekkert að draga úr því. Ég bind þó vonir við störf hágengisnefndarinnar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra greindi frá áðan.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að horfa með bjartsýni fram á veginn. Aðstæður eru í ójafnvægi núna en samkvæmt spám mun jafnvægi komast á fljótlega.

Það segja margir að ríkið verði að grípa til aðgerða. Hvaða aðgerðir eru það? Jú, ríkið getur dregið úr framkvæmdum sem það er að gera en einnig getur það dregið úr útgjöldum. Hverjir eru helstu útgjaldaþættirnir? Það eru helst framlög til velferðar- og menntamála og þar telur launakostnaðurinn mest. Ég efast stórlega um að á hv. Alþingi geti myndast þverpólitísk samstaða um að draga úr framlögum til velferðar- og menntamála. Með því mundum við skerða stórlega þjónustu og það hefur ekki verið stefna núverandi ríkisstjórnar. Það hefur reyndar komið fram hjá sumum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir vilja greinilega niðurskurð og verður fróðlegt að sjá tillögur stjórnarandstöðunnar um hvaða þjónustu eigi að skerða.

Virðulegi forseti. Við verðum einnig að horfa til þess að vegna þess hve markaðurinn er opinn hefur ríkið þetta ekki algjörlega í hendi sér. Vaxtastjórnunartæki Seðlabankans er ekki eins öflugt og áður. Vaxtamunurinn gefur erlendum aðilum tækifæri til að fjárfesta í innlendum skuldabréfum og húsbréfum á góðum vöxtum og ljóst að mikið innflæði vegna þessa styrkir krónuna til muna.

Við skulum hafa hugfast að í allri umræðunni sannast það enn og aftur að mikilvægt er að atvinnugreinum fjölgi. Með því sköpum við grunn að auknum stöðugleika. Við horfum fram á veginn en með hinum miklu framkvæmdum er verið að auka tekjurnar til framtíðar.