131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:56]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Um það er ekki deilt að gengi krónunnar er hátt um þessar mundir. Spámenn bankanna eru sammála um það, þó þeim beri ekki saman um hvenær það muni lækka. Hins vegar er ekki alveg eins skýrt og áður hvaða vanda þetta háa gengi færir útgerðinni. Sumir af forustumönnum í útgerð hafa látið taka við sig viðtöl að undanförnu þar sem fram hefur komið að það hafi verið býsna góður hagnaður hjá þeim á síðasta ári og að lítill munur sé á þeim hag sem útgerðin hafi haft af hækkun afurðaverðs á erlendum mörkuðum og þeirri breytingu á gengi krónunnar sem hefur verið. Þar munar ekki nema rúmu prósenti í heildina séð samkvæmt upplýsingum Seðlabankans. Skuldir útgerðarinnar eru nefnilega orðnar í kringum 70% í erlendum gjaldmiðli þannig að það er farið að vega býsna þungt þegar kemur að hlutum eins og þessum.

Við hljótum að standa fyrst og fremst frammi fyrir einni spurningu og hún er sú hvort tilraunin með örsmáa hagkerfið okkar sem er í gangi, að opna fyrir allar gáttir fjármagns milli íslenska hagkerfisins og stóru hagkerfanna í kringum okkur, hvort sú tilraun takist. Er hægt að stjórna gengi krónunnar í þessum aðstæðum? Það mun fleira koma til en Kárahnjúkavirkjun í framtíðinni ef menn ætla að stjórna gengi krónunnar sem menn kalla ofurkrónu núna. En hvað skyldi hún verða kölluð eftir níu til tólf mánuði þegar hún verður fallin? Það er nefnilega þannig sem það hefur gengið í gegnum tíðina að stjórna þessari blessaðri krónu. Það verður ekki farið til baka, menn munu ekki stíga skrefin til baka hvað varðar opnun hagkerfisins sem hefur þegar farið fram. Það held ég að allir horfist í augu við.

Nú þurfa menn að svara því hvort þeir vilja lifa við sveiflur þessarar litlu krónu í framtíðinni eða hvort þeir vilja horfast í augu við það sem annars þarf að gera, að taka upp einhverja aðra mynt sem er stöðugri og kemur atvinnuvegunum til góða sem stöðugleiki til framtíðar. Ég er sannfærður um að það verður aldrei hægt að stjórna gengi íslensku krónunnar eins og til hagar eftir opnun hagkerfisins öðruvísi en með sveiflum. Það þarf ekki annað en eitt stórt fyrirtæki til að sparka gengi krónunnar annaðhvort upp eða niður.