131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þau svör sem hér hafa verið veitt sem eru um margt athyglisverð. Í raun held ég að hæstv. forsætisráðherra hafi svarað síðustu spurningu minni neitandi, þ.e. um hvort ríkisstjórnin eða hann sem yfirmaður efnahagsmála í ríkisstjórn væri yfir höfuð með einhverja meðvitund í þessum efnum. Á hæstv. forsætisráðherra var ekki að heyra að þar á bæ væru neinar sérstakar áhyggjur af þessu ástandi eða að ástæða væri til að gera nokkurn skapaðan hlut.

Það kvað hins vegar við annan tón þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra skýrði frá að hann hefði skipað nefnd vegna hins mikla vanda sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir, svonefnda hágengisnefnd, svo maður tali nú ekki um að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og fleiri stjórnarliðar hafa greinilega allmiklar áhyggjur af ástandinu og eru meðvitaðir um þær þrengingar sem útflutnings- og samkeppnisgreinar ganga nú í gegnum. Þeir finna fyrir því hvernig það brennur á fólki sem m.a. er að missa atvinnuna um þessar mundir. Þannig má greinilega merkja undirliggjandi ágreining í ríkisstjórninni um stöðu efnahagsmála og mat á aðstæðum. Annars vegar er hæstv. forsætisráðherra sem ekki sér ástæðu til að gera neitt, segir að þetta muni að vísu reyna á þanþol hagkerfisins og verðbólgumarkmið Seðlabankans en að menn muni hafa sig í gegnum það og það verði bara að hafa það. Á hinn bóginn eru aðrir, þar á meðal hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem beinlínis lagði til að farið yrði í að breyta forritinu hjá Seðlabankanum og farið inn á braut annars konar efnahagsstjórnunar.

Ég verð að segja að mér finnst hæstv. forsætisráðherra skauta ótrúlega léttilega yfir þær alvarlegu aðstæður sem uppi eru og blasa við, sem allir aðrir en forsætisráðuneytið eru uppteknir af að fjalla um þessa dagana. Síðasti bankinn sem birt hefur efni frá greiningardeild sinni er Íslandsbanki. Hvað segir hann í áliti sínu núna 3. febrúar? Krónan er ofmetin, segir þar. Núverandi gengi krónunnar er langt yfir því gengi sem tryggir innra og ytra jafnvægi þjóðarbúsins. Gengislækkun mun hafa víðtæk áhrif á efnahagslífið, lækkunin mun valda aukinni verðbólgu, rýrnun kaupmáttar, samdrætti í einkaneyslu og almennum þjóðarútgjöldum. Verðbólgan gæti farið í 8% strax á næsta ári í kjölfar yfirskots á gjaldeyrismarkaði.

Menn eru sem sagt með bullandi áhyggjur af því hve harkaleg lendingin reynist, sem einhvern tíma verður, hvort það verði alger brotlending eða hvort menn sleppi með sviðna hjólbarða. En eitt er víst og það er að á meðan þetta ástand varir eru uppsagnir hjá útflutningsgreinunum. Við erum að missa störf í iðnaði úr landi og menn sjá ekki annað fyrir sér þar en áframhaldandi erfiðleika og gjaldþrot. Ég tel mál til komið, þótt það sé viðkvæmt fyrir hæstv. forsætisráðherra, að vakna af þyrnirósarsvefninum og horfast í augu við eigin stefnu, sem sagt ruðningsáhrif stóriðju- og skattalækkunarstefnunnar í íslensku efnahags- og atvinnulífi.