131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:30]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu og tek undir mörg sjónarmið hans sem hann ræddi hér varðandi stöðu minni hluthafa og að hverju þurfi að hyggja í þeim efnum.

Hv. þingmaður minntist einnig á hlutabréfakaup almennings á undanförnum árum og aðkomu almennings að því að taka þátt í m.a. einkavæðingarferli og hlutabréfakaupum í fyrirtækjum sem sett hafa verið á markað hér undanfarin ár. Ég hygg nú að þar beri bankana hæst þegar við tölum um það ferli allt saman. Það hefur auðvitað vakið athygli mína eins og fjöldamargra annarra að hagnaður bankastofnana hefur aukist gífurlega hratt og mikið og gera má ráð fyrir að einstaklingar sem hafa tekið þátt í þessu hafi hagnast allnokkuð en einkum hafa það þó verið stærri fjárfestarnir og einkanlega vegna þess að það fór líka fram svokallaður eftirkaupamarkaður þar sem minni hluthafar voru markvisst keyptir út með viðbótartilboðum eftir að einkavæðingin hafði átt sér stað.

Nú stendur fyrir dyrum að einkavæða Símann. Ég velti því satt að segja fyrir mér, hæstv. forseti, hvort við munum upplifa aftur þessa stöðu og hefði gjarnan viljað heyra hv. þingmann fara nokkrum orðum um það en ég veit að hann hefur oft starfað í efnahags- og viðskiptanefnd. Mun líka koma upp sú staða þegar við einkavæðum Símann og hann verður seldur að fyrirtækið sem rekið verður verði síðan með (Forseti hringir.) beinan aðgang að því að ná í fjármuni hjá almenningi í þjónustugjöldum og öðrum gjöldum sem upp verða tekin og þar verði ótrúlegur hagnaður þegar upp verður staðið?