131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[16:06]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á fyrst og fremst það erindi að auka aðeins við þá umræðu um yfirtökuna hjá þeim fyrirtækjum þar sem veltuhraði með hlutabréf hefur verið lítill. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það er auðvitað ekki til einn einhlítur mælikvarði og sjálfsagt mál og nauðsynlegt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að fara ofan í þau mál, en kjarni málsins og markmiðið hlýtur að vera það fyrst og fremst að tryggja stöðu minni hluthafa í hlutafélögum þar sem um lítil viðskipti er að ræða.

Ég hef undir höndum grein eða gögn frá greiningardeild KB-banka um viðskipti í Kauphöllinni á árinu 2004 og sá mælikvarði sem þeir leggja til grundvallar er veltuhraðinn. Þar kemur fram að af þeim fyrirtækjum sem þeir eru með undir í skoðuninni, þar á meðal öll þessi stóru fyrirtæki eins og KB-banki, Landsbankinn, Íslandsbanki, svo dæmi séu tekin, þá eru það einungis tvö fyrirtæki sem eru með veltuhraða undir 0,5 sem ég lagði til grundvallar að yrði að vera til staðar ef ætti að fara um þau mál með sérstökum hætti. Frumvarp sem ég ásamt fimm öðrum þingmönnum lagði fram gerir ráð fyrir því að ef um er að ræða veltuhraða innan við 0,5 þá skuli verðið, yfirtökuverðið, ákvarðað af þremur dómkvöddum matsmönnum. Mér sýnist því af þessu að allt bendi til þess að um gæti verið að ræða mjög fá tilvik og væri þá út af fyrir sig ekki mikil röskun á markaðnum þó að í þeim tilvikum yrði farið yfir með sérstökum hætti, en vitaskuld mætti líka að hugsa sér að taka tillit til heildarviðskiptanna með hlutabréfin í t.d. tilviki KB-banka en þá fóru fram viðskipti upp á um 120 milljarða kr. á árinu 2004 og veltuhraðinn þar samkvæmt þessum tölum var 0,63.

Það sem ég er einfaldlega að undirstrika er að ég tel að taka þurfi á þessu vandamáli og að það sé ekki nægilega gert í frumvarpinu (Forseti hringir.) og legg inn í þá umræðu það frumvarp sem ég hef áður gert grein fyrir.