131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálaeftirlitið.

45. mál
[15:03]

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins. Flutningsmaður að þessari tillögu er auk mín hv. þm. Ögmundur Jónasson. Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á starfsskilyrðum Fjármálaeftirlitsins og stöðu þess gagnvart ráðherra, ríkisstjórn og aðilum á fjármálamarkaði. Nefndin geri tillögur um hvernig sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins verði best tryggt og starfsemi þess efld. Í því skyni skoði nefndin m.a. stjórnsýslulega stöðu þess og hvort heppilegast sé að það heyri undir Alþingi.

Tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd. Miklar hræringar á fjármálamarkaði síðan þá gefa enn meira tilefni en áður til að huga rækilega að stjórnsýslulegri stöðu og aðstæðum Fjármálaeftirlitsins til að sinna þeim mikilvægu skyldum sem því eru lagðar á herðar. Því er enn brýnna en áður að ráðast í endurbætur á grundvelli úttektar á borð við þá sem hér er lögð til.

Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun með sérstaka stjórn en heyrir undir viðskiptaráðherra. Stofnunin gegnir lykilhlutverki á íslenskum fjármálamarkaði. Henni er ætlað afar mikilvægt opinbert eftirlitshlutverk og getur með aðgerðum sínum haft stefnumarkandi áhrif á allar athafnir og þróun á fjármálamarkaði. Því er mikilvægt að sjálfstæði stofnunarinnar sé tryggt þannig að hún geti starfað óháð handhöfum framkvæmdarvaldsins og hagsmunaaðilum. Að sama skapi er ljóst að búa verður þannig að Fjármálaeftirlitinu að það geti sinnt sínum mikilvægu verkefnum af myndarskap og afgreitt fljótt og vel þau mál sem því berast eða það tekur upp að eigin frumkvæði. Þess vegna gerir tillagan jafnframt ráð fyrir að nefndarstarfið miði að því að skoða hvernig efla megi starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Í ljósi mikilla og umdeildra hræringa á íslenskum fjármálamarkaði er brýnt að vinnu nefndarinnar verði hraðað sem kostur er.

Fjármálaeftirlitinu var komið á fót með lögum nr. 87/1998 og það fer með þá starfsemi sem áður var í höndum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins. Þar var valin sú leið að setja stofnunina undir viðskiptaráðherra en það val verður að teljast mjög hæpið, m.a. í ljósi þess að viðskiptaráðherra hefur t.d. með sölu banka verið einhver atkvæðamesti aðilinn á íslenskum fjármálamarkaði á síðustu árum. Það er breytilegt eftir löndum hvar ríkisstofnunum sem fara með sambærilegt hlutverk og Fjármálaeftirlitið gerir er skipað í stjórnsýslunni. Breyting á stjórnsýslulegri stöðu Fjármálaeftirlitsins, þannig að það verði fært undan viðskiptaráðherra, gæti styrkt stofnunina sem óháðan eftirlitsaðila og jafnframt eflt traust hennar og trú manna á íslenskum fjármálamarkaði. Sá möguleiki, sem gert er ráð fyrir að skoðaður verði samkvæmt tillögunni, að færa stofnunina undir Alþingi, gæti komið bæði Alþingi og Fjármálaeftirlitinu verulega til góða þar sem hvor aðilinn gæti styrkt hinn í eftirlitshlutverki þeirra.

Það að færa mikilvægar eftirlitsstofnanir undir Alþingi er ekki ný hugmynd. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson fluttu tillögu til þingsályktunar á 127. löggjafarþingi þar sem lagt var til að kannaðir yrðu kostir þess að færa Þjóðhagsstofnun undir Alþingi. Þar var bent á að breytingar á stöðu Ríkisendurskoðunar sem var færð undir yfirstjórn Alþingis frá framkvæmdarvaldinu urðu til þess að styrkja þá stofnun mjög sem sjálfstæðan, óháðan og faglegan eftirlitsaðila. Allt fram til ársins 1987 heyrði Ríkisendurskoðun undir fjármálaráðherra. Þar var einnig bent á stöðu umboðsmanns Alþingis þó að ekki sé hér um sambærilegar stöður að ræða. Þessum aðilum hefur reynst vel að heyra undir Alþingi fremur en ráðherra og það hefur reynst þeim haldgóð trygging fyrir því að þeir njóti óskoraðs trausts og virðingar og að fagleg og hlutlæg vinnubrögð þeirra séu ekki dregin í efa vegna stöðu þeirra í stjórnsýslunni. Tillaga þessi gerir þó ekki ráð fyrir að aðeins sé kannaður sá kostur að færa Fjármálaeftirlitið undir Alþingi heldur skulu og aðrir kostir skoðaðir og samanburður gerður á hvar sjálfstæði stofnunarinnar verður best tryggt.

Flutningsmenn leggja áherslu á að allar breytingar sem gerðar kunna að verða á starfsemi og stöðu stofnunarinnar séu yfirvegaðar og vandlega undirbúnar, í góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.

Herra forseti. Þetta var greinargerðin með þeirri tillögu til þingsályktunar sem ég hef rakið, þ.e. tillögu til þingsályktunar um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins.

Okkur er öllum dagljóst mikilvægi þess að slík eftirlitsstofnun sem Fjármálaeftirlitið er njóti trausts í samfélaginu. Gríðarlega miklar hræringar eru á fjármálamarkaðnum. Eins og ég nefndi áðan hafa bankarnir verið einkavæddir og seldir. Reyndar var sú aðgerð mjög umdeild, bæði hin pólitíska ákvörðun og einnig framkvæmd hennar. Þá er vert að huga að því að Fjármálaeftirlitinu bar það hlutverk að fylgjast með framkvæmd einkavæðingar og sölu á bönkunum. Sér hver í hendi sér hver staða Fjármálaeftirlitsins hefur þá verið þegar sú stofnun heyrði beint undir viðskiptaráðherra sem sjálfur bar ábyrgð á framkvæmd, einkavæðingu og sölu bankanna. Sú staða Fjármálaeftirlitsins í þeim gjörningi öllum var ekki öfundsverð og hefur vafalaust reynt á trúverðugleika hennar í þeim gjörningum öllum.

Þegar við lítum á hvernig að þessu er staðið núna eru sérstök lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lög nr. 87/1998, og þar er einmitt rakin sú lagaumgjörð sem Fjármálaeftirlitinu er búin. Þar stendur í 3. gr., með leyfi forseta:

„Með eftirlit samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun og lýtur sérstakri stjórn. Stofnunin heyrir undir viðskiptaráðherra.“

Í 4. gr. segir áfram hvernig þessi tengsl við viðskiptaráðherrann eru bundin, með leyfi forseta:

„Með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn.“ — Reyndar er einn stjórnarmaður skipaður eftir tilnefningu frá Seðlabanka Íslands en hinir tveir beint af viðskiptaráðherra. — „Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.“

Þau er þess vegna alveg bundin í lögum, þessi nánu tengsl milli viðskiptaráðherra og Fjármálaeftirlitsins. Ég dreg í efa að gagnvart almenningi og gagnvart þeim sem hér eiga hlut að máli sé þessi stjórnsýslulega staða sú besta eða trúverðugasta fyrir starfsemi og stöðu Fjármálaeftirlitsins. (LB: Eru flokkatengsl þarna á milli?) Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson grípur fram í og spyr um flokkatengsl, pólitísk flokkatengsl í þessum málum. Ég vil láta öðrum eftir að velta þeim fyrir sér en auðvitað er sú hætta fyrir hendi sem hv. þingmaður bendir á í frammíkalli sínu.

Ég vil líka vitna til þess að fyrir skömmu var hér í heimsókn breskur fjármálasérfræðingur sem heitir sir Howard Davies og er rektor London School of Economics, mjög virtrar kennslu-, fræðslu- og rannsóknarstofnunar í London. Hann flutti erindi þegar hann var hér á fundi 10.–11. janúar sl. og lagði gríðarlega áherslu á sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins og að það mætti hvergi tengjast hvorki framkvæmdarvaldinu sem væri umsvifamikið á fjármálamarkaði né beint hagsmunaaðilunum sem það á að hafa eftirlit með og starfa með. Í máli sínu lagði hann einmitt áherslu á þau sömu atriði og ég hef gert að umtalsefni varðandi stöðu Fjármálaeftirlitsins.

Það skiptir miklu máli í öllum þessum hræringum, hvort sem um er að ræða olíuverðssamráð, um trúverðugleika einstaklinga eða fyrirtækja, um tryggingafélög eða um banka og önnur fjármálafyrirtæki. Trúverðugleikinn skiptir máli.

Það er mjög fróðlegt að velta fyrir sér hlutverki Fjármálaeftirlitsins. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.“

Heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir, auðvitað viljum við að þeir séu þannig. En skiptir þá ekki miklu máli að sá eftirlitsaðili sem á að kveða upp þann dóm sé hlutlaus og ótengdur þeim aðilum sem um er fjallað? Þess vegna rek ég þetta hér.

Hægt er að vitna til fleiri verkefna sem Fjármálaeftirlitinu ber að inna af hendi, t.d. stendur í 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem margur kann að velta fyrir sér hvort hafi verið fylgt rækilega eftir, með leyfi forseta:

„Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram.“ — Takið eftir, fyrir fram. — „Samþykkis Fjármálaeftirlitsins skal enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili eykur svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti fer yfir …“ einhvern ákveðinn hlut.

Mér finnst, forseti getur þá leiðrétt mig ef hann veit betur, að eftirlitið sé þarna eftir á, að fyrst sé framkvæmdur gjörningurinn í samruna fjármálafyrirtækja eða verslun með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og síðan sé eftir dúk og disk leitað samþykkis hjá Fjármálaeftirlitinu eftir á, ef það er þá gert. Þá stendur Fjármálaeftirlitið frammi fyrir gjörðum hlut og virðist eiga erfitt með að taka á því.

Herra forseti. Ég tel þetta mjög brýnt mál, að taka á sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins þannig að það verði og taki á með þeim sem vilja efla traust og trú á íslenskan fjármálamarkað. Þetta er liður í því.

Ég vona að að lokinni fyrri umr. í þinginu verði málinu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.