131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálaeftirlitið.

45. mál
[15:41]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, tel hana ágæta. Ef til vill er bæði það þingmál sem hér er til umræðu og umræðan sjálf í takt við það sem er að gerast og hefur verið að gerast bæði í íslenskum stjórnmálum og íslensku atvinnulífi þar sem ríkið er í vaxandi mæli að draga sig út úr beinum afskiptum í atvinnulífinu og svokallað frjálsræði að aukast. Þá kemur auðvitað upp umræða um hlutverk ríkisvaldsins, hlutverk Alþingis gagnvart hinu nýja viðskiptaumhverfi sem hefur verið að skapast og má segja að hlutverk þingsins sé fyrst og fremst, eins og komið hefur fram, að skapa hin almennu skilyrði og halda uppi eðlilegu eftirliti með því að leikreglur séu virtar þannig að hér skapist ekki fákeppni og hin eðlilega samkeppni verði til staðar neytendum til hagsbóta.

Í því eftirliti, eins og þingmálið gerir ráð fyrir, gegnir Fjármálaeftirlitið lykilhlutverki. Má segja að með Samkeppnisstofnun sé Fjármálaeftirlitið eitt af meginverkfærum stjórnvalda til að veita hinum frjálsa markaði aðhald og um það snýst málið. Grundvallarspurningin er sú hvort Fjármálaeftirlitið hafi það sjálfstæði sem nauðsynlegt er og ég hygg að allir séu sammála um að þurfi að vera til staðar.

Ég held að reynslan, ekki margra ára reynsla af Fjármálaeftirlitinu hafi sýnt að það hefur burði til að vinna afskaplega faglega. Það hefur sjálfstæði sem m.a. kemur fram í því að það er ekki háð dyntóttum framlögum Alþingis að öðru leyti en því að í almennum lögum var samþykkt að Fjármálaeftirlitið gæti rukkað viðskiptavini sína, ef hægt er að kalla þá því nafni, þ.e. þá sem undir eftirlitsskyldu Fjármálaeftirlitsins heyra og að því leyti til er eftirlitið óháð Alþingi.

Varðandi afstöðu til þess hvort eftirlitið skuli heyra undir viðskiptaráðherra, forsætisráðuneytið eða beint undir Alþingi tel ég eðlilegra, eins og fram kom m.a. hjá hv. þingmanni Lúðvíki Bergvinssyni, að það heyri undir framkvæmdarvaldið stjórnsýslulega enda mun sá háttur vera almennur í nágrannalöndum okkar. Það heyri ekki undir Alþingi en Alþingi fylgist að sjálfsögðu með.

Þá er líka rétt varðandi þann þáttinn að þó að það heyri stjórnsýslulega undir eitthvert tiltekið ráðuneyti getur viðkomandi ráðherra á engan hátt haft bein afskipti af eftirlitinu. Það hefur sjálfstæði í vinnubrögðum. Þannig getur viðskiptaráðherra hvorki gefið Samkeppnisstofnun né Fjármálaeftirlitinu bein fyrirmæli um starfshætti eða verkefni sem kunna að verða unnin þar á bæ. Í því felst einmitt þetta mikilvæga sjálfstæði sem er til umfjöllunar. Ég hygg að það sé enginn ágreiningur um það. Að því leyti til get ég tekið undir efni þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu að ég held að menn geti verið alveg opnir fyrir því að skoða hvort Fjármálaeftirlitið sé nægjanlega sjálfstætt. Ég held að svo sé. Eins og ég skil tillöguna og ekki síst út frá greinargerðinni vilja flutningsmenn nálgast málið með opnum huga, velta við steinum eins og hér var orðað til að fara á sem hlutlægastan hátt yfir stöðuna með það í huga að efla og styrkja hið mikilvæga sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Með það að leiðarljósi finnst mér málið vera af þeim toga sem er ósköp eðlilegt að taka til nákvæmrar skoðunar.