131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:11]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í upphafi þakka flutningsmanni, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, og félögum hans fyrir staðfestuna, að ég ekki segi þrákelknina, að flytja þessa þingsályktunartillögu hér enn því að á því er mikil þörf. Ég hef áður tekið þátt í umræðu um þetta þingmál, eins og hv. flutningsmaður gerði mér reyndar þann heiður að minnast á. Ég tel eins og áður að margt sé mjög líkt með markmiðum flutningsmanna og markmiðum mínum og minna flokksmanna. Við erum með annað mál um Ríkisútvarpið á dagskrá þingsins eða einhvers staðar í holrýmum þess og það hefði auðvitað verið skemmtilegt að ræða þetta í einu lagi. Á því gefst nú ekki kostur.

Ég ætla, forseti, áður en ég ræði efnisatriði tillögunnar að tala nokkuð um nýlega viðburði í málefnum Ríkisútvarpsins, nefnilega þá að núna um helgina var það viðtal í Morgunblaðinu sem flutningsmaður minntist á þar sem hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagði okkur frá því að nú ætlaði hún að leggja fram frumvarp þar sem ætti m.a. — það var eina efnisatriðið sem nefnt var — að breyta afnotagjöldum í þá átt, hygg ég að það hafi verið orðað, að afnema þau.

Þess var vænst að menntamálaráðherra mundi láta til sín taka í málefnum Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntamálaráðherra hafði verið þar við störf og þekkti þess vegna innviði þess betur en kannski þeir menntamálaráðherrar sem á undan komu, og menn tóku strax eftir því að hún hafði að vissu leyti aðra afstöðu en algeng var í Sjálfstæðisflokknum, var greinilega hlynnt starfsemi Ríkisútvarpsins með einhverjum hætti og þess vegna búist við nokkru af henni í þeim málum.

Það sem hún gerði strax var að hún boðaði einhvers konar aðgerðir í málefnum útvarpsins og við biðum eftir því á síðasta þingi hverjar þær yrðu. Síðan var boðað frumvarp á þessu þingi, það frumvarp sem ekki er fram komið en minnst er á í Morgunblaðinu í gær. Enginn veit enn þá um hvað það frumvarp er, enginn veit enn þá nema menntamálaráðherra og einhverjir menn í kringum hana hverjir eru að semja það frumvarp. Þegar um það var spurt í menntamálanefnd í byrjun hausts gátu fulltrúar ráðuneytisins, starfsmenn ráðherra, ekki upplýst það hverjir væru að semja það eða hvar það væri statt.

Á fundi í Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins 31. október var útvarpsstjóri spurður og aðrir þeir sem þar voru hvort þeir þekktu málið. Það kom fram í svari útvarpsstjóra að hann væri gjörsamlega ókunnugur þessu máli, hefði aldrei heyrt um þetta frumvarp nema það sama og allur almenningur og ekkert verið um það spurður og vissi ekkert hverjir væru að undirbúa það og ekkert hvaða efnisatriði þar yrðu.

Síðan var skipuð sérstök fjölmiðlanefnd og menn bjuggust við að þar væri fjallað um Ríkisútvarpið en það var sérstaklega tekið fram í erindisbréfi fjölmiðlanefndarinnar — ég er að vísu ekki með erindisbréf nefndarinnar en plagg undirritað af Guðmundi Árnasyni — að hún ætti að vísu, með leyfi forseta:

„… að fjalla um markaðsstöðu og hlutverk Ríkisútvarpsins í samhengi við aðra fjölmiðla“ — síðan kemur mínusinn, með leyfi forseta: „án þess þó að gera tillögur um breytingar á lögum um stofnunina, enda sérstök vinna þegar í gangi á vegum stjórnarflokkanna um það mál.“

Þetta mál er því unnið í leyndum og pukri þrátt fyrir að allt vorið og hálft sumarið hafi verið lagt undir fjölmiðlaumræðu sem sannaði eitt sem ég held að allir geti verið sammála um og það er að fjölmiðlamál af þessu tagi, ekki síst ef það fjallar um Ríkisútvarpið sem er eign okkar allra, á að ræða opinberlega. Það eiga allir að koma að þeirri umræðu.

Það sem vekur svo athygli núna er það að ráðherra segir í Morgunblaðsviðtalinu að það eigi að afnema afnotagjöldin. Gott og vel. Það höfum við rætt hér. Ég er t.d. ekki á móti því. Við höfum talað um að þau séu á margan hátt gölluð, hugsanlegan beinlínis úrelt.

Í Fréttablaðinu í dag er líka rætt við ráðherrann. Þá kemur fram að hún ætli að leggja fram, segir blaðamaður, frumvarp sitt á næstu fjórum vikum, sem ég skil sem einhvern tímann á næstu fjórum vikum, innan fjögurra vikna frests héðan í frá. Ég skrifa ráðherrann út af fyrir sig ekki fyrir því en hún hlýtur þó að hafa sagt eitthvað í þá veru. Um afnotagjöldin er þetta hins vegar haft eftir ráðherranum, með leyfi forseta:

„Hún nefnir nefskatt eða fjárlög sem hugsanlegan möguleika, en einnig hafi verið rætt um að nýta megi persónuafsláttinn.“

Þannig að hæstv. ráðherra veit ekki sjálf um hvað frumvarpið verður sem hún ætlar að flytja hér á næstu fjórum vikum. Ráðherra virðist ekki samkvæmt Fréttablaðinu vita hvað hún ætlar að flytja í frumvarpinu og þó erum við aðeins að ræða um einn afmarkaðan þátt af því frumvarpi.

Það sem líka er athyglisvert er að ráðherra lætur þó uppi að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sé að fara yfir málefni Ríkisútvarpsins og almannaþjónustuhlutverk þess — þetta vissum við ekki, þó mig minni að kæra sem ég hygg að eigi uppruna sinn á Stöð 2 hafi verið send til þessarar stofnunar en þetta er sum sé hér án þess að hún hafi sagt okkur það eða neinum öðrum — og þess vegna þurfi að breyta lögunum um Ríkisútvarpið. Þetta er alveg nýr flötur á málinu og mjög athyglisverður vegna þess að eftir því sem hægt er að dæma af viðtalinu við ráðherra í Fréttablaðinu fjallar eitt aðalatriðið í þessum athugasemdum frá ESA um það sem við höfum verið að ræða hér, samfylkingarmenn og fleiri, hvernig það megi vera að hægt sé að búa til almannaútvarp með ríkisstyrkjum sem síðan sé í samkeppni við markaðsstöðvarnar. Hvernig það geti staðist. Hin eðlilega ályktun okkar af því, sem er á margan hátt sú sama og í frumvarpi þeirra hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar o.fl., er að það sem upp á okkur stendur sé að búa til almennilegt almannaútvarp úr Ríkisútvarpinu og búa þannig um hnútana að það almannaútvarp þjóni hlutverki sem almannaútvarp á að þjóna en markaðsstöðvanna sé það sem markaðsstöðvanna er.

Það virðist hins vegar ekki vera hjá ráðherranum því hún talar um þetta svona svipað og Símann og fleira, að það eigi annars vegar að vera skil milli almannaútvarpsins, milli einhvers konar hlutverks almannaútvarpsins, en síðan eigi við hliðina á því að reka sérstakt fyrirtæki sem er samkeppnisfyrirtæki. Það bendir til þess, eins og hv. flutningsmaður lét að liggja, að vilji ráðherrans, eftir því sem hann sýnist í blöðunum, sé sá að hlutafélagavæða eða markaðsvæða með einhverjum hætti hluta Ríkisútvarpsins. Við vitum vel um það hver eru örlög þeirrar urtar sem núverandi hæstv. ríkisstjórn markaðsvæðir og hlutafélagavæðir.

Ég ætla, forseti, í seinni ræðu minni að koma betur inn á efnisatriði frumvarpsins en þetta þurfti að koma fram hér strax og við byrjum að ræða Ríkisútvarpið á þessum tíma.