131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:20]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er galli í lagaskilgreiningu okkar á eignarrétti að það vantar í hana hugtakið „þjóðareign“. Því þyrftum við að koma í stjórnarskrá eins og ég hef rætt í þinginu áður og ýmsir með mér. Ríkisútvarpið á að mínu mati að vera almannaútvarp og vera því í einhvers konar almannaeign eða þjóðareign. Ég tel að það verði best tryggt með sjálfseignarstofnunarformi í lagalegum tengslum að sjálfsögðu við ríkisvaldið, en ég mótmæli þeim skilningi almennt að öll sú eign sem núna telst til ríkisins sé einkaeign ríkisins. Ég hef rætt þetta nokkuð við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hefur túlkað það svo að ég vilji þjóðnýta alla hluti, það er svona frumleg kenning, en það er meira að segja í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar núna að koma auðlindum hafsins með einhverjum hætti í þjóðareign í stjórnarskrá. Það er því kominn tími til að við ræðum það, ekki síst við samfylkingarmenn við sjálfstæðismenn, hvernig þetta verði hugsað því ég hygg að með betri skilgreiningu á þjóðareign, á eign sem er sum sé þjóðarinnar allrar en ekki ríkisins sem slíks, megi koma í veg fyrir þessar fornu hugmyndafræðilegu deilur sem spilla framförum og umræðu í landinu.