131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:23]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við erum nú komnir nokkuð á aðrar slóðir en slóðir Ríkisútvarpsins. En það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að ef maður skilgreinir einkaeignarrétt og telur svo allan annan eignarrétt vera háðan þeirri skilgreiningu, fær maður það út að ekki sé til neinn annar eignarréttur en einkaeignarréttur.

Minna má þó á það (Gripið fram í.) að til er tvenns konar skilgreining á lögum að eignarrétti. Hún er jákvæð og hún er neikvæð. Sú jákvæða er skilgreind þannig að maður eigi eign að því leyti sem hann megi nota hana og þá eru talin upp notkunarsviðin. Þetta á t.d. við um vatn og auðlindir í þeim lögum sem nú gilda. Við fórum í gegnum þetta í þinginu um daginn. Síðan er til neikvæð skilgreining eignarréttar. Þetta eru ekki matshugtök heldur ósköp einfaldlega lagaleg tæknihugtök. Hin neikvæða skilgreining er þannig að eign manns felist í hvers konar notum hans af henni sem ekki séu hindruð með sérstökum lögum. Þannig að strax þarna í hinu lagalega áliti á eignarrétti er auðvitað kominn annar skilningur á eignarréttinum en hv. þm. Pétur Blöndal vill kannast við.

Við erum með þjóðareign að lögum hér á landi á nokkrum fyrirbærum. Ég nefni Þingvelli. Ég nefni Skarðsbók. Þjóðin á þetta þó að hún geti ekki veðsett það. Hún á þetta öll saman þjóðin, sem þýðir ekki bara þeir sem nú lifa, heldur þeir sem á eftir koma og þeir sem áður voru með nokkrum hætti, þó að maður verði að vera svolítið heimspekilegur og guðfræðilegur til að finna það út. Það er eignarréttur sem er tíðkaður í öðrum löndum og viðurkenndur í stjórnarskrám ýmissa landa og stendur til af okkar hálfu, samfylkingarmanna, að koma hér í stjórnarskrá og stjórnarandstæðinga fleiri og stendur meira að segja í sáttmála hæstv. ríkisstjórnar að hún ætli að gera, eða hvernig á að túlka ákvæðið um auðlindir hafsins með öðrum hætti en þessum? Það er því margt í mörgu í eignarréttarmálunum þó að það varði ekki Ríkisútvarpið.