131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:26]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við fáum tækifæri til að ræða þessa tillögu hv. þingmanna, Guðjóns A. Kristjánssonar, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Sigurjóns Þórðarsonar. Þessi tillaga hefur legið hér á borðum okkar áður og er það vel því við fáum þó a.m.k. tækifæri til að koma í ræðustól og ræða um Ríkisútvarpið, en málefni þess eru okkur þingmönnum hjartfólgin eins og alþjóð veit.

Það er margt í þessari tillögu sem ég get skrifað undir og er sammála ýmsum efnisþáttum sem greinargerðin fjallar um, en ósammála öðrum eins og gengur og gerist, en í öllu falli er tillagan uppspretta umræðu. Það eru sannarlega líka ummæli hæstv. menntamálaráðherra sem hún lét frá sér fara um helgina í viðtali í Morgunblaðinu, þar sem hún boðar breytingar á lögum um Ríkisútvarpið án þess þó að vera með nokkuð í höndunum sem þjóðin getur rætt um í því sambandi.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það hefði verið verulegur fengur af því að hafa hæstv. menntamálaráðherra við þessa umræðu til þess að hún gæti gefið okkur tækifæri til að eiga þá sjálf hin sjálfsögðu skoðanaskipti um þau ummæli sem hún viðhefur í fjölmiðlum um helgina, en svo er ekki. Hún er ekki hér og því verðum við hv. þingmenn enn eina ferðina að spekúlera í ummælum ráðherra án viðveru þeirra sjálfra.

En eftirfarandi setning er höfð eftir hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu, með leyfi forseta,

„Báðir flokkarnir“ — þá er átt við stjórnarflokkana — „eru eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að hlúa að Ríkisútvarpinu svo það geti svarað kröfum tímans. Það þarf að skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins og tryggja því áfram öruggan sess sem öflugt fyrirtæki.“

Ég hefði gjarnan viljað fá svör frá hæstv. menntamálaráðherra um hvað hún meini með því að segja að Ríkisútvarpið þurfi að geta svarað kröfum tímans og að hvaða leyti henni finnist Ríkisútvarpið ekki svara kröfum tímans í dag. Ég er ekki að segja að það sé rangt að Ríkisútvarpinu hafi ekki tekist að svara kröfum tímans. Ég vil meina að Ríkisútvarpið hafi átt í verulegum erfiðleikum með ja, það má kannski kalla það að svara kröfum tímans, en erfiðleikar Ríkisútvarpsins hafa í mínum huga fyrst og fremst verið fólgnir í afstöðu ríkisstjórnarinnar til útvarpsins. Sú afstaða birtist auðvitað fyrst og síðast í fjárlögum íslenska ríkisins, í því hverjar afnotagjaldaheimildir ríkisstjórnarinnar eru á hverju ári, þ.e. það er í höndum ríkisstjórnarinnar að skammta Ríkisútvarpinu tekjur. Ríkisstjórnin hefur haldið Ríkisútvarpinu í fjársvelti allt of lengi sem hefur gert þessari merku menningarstofnun allt of erfitt fyrir að rækja sitt lögbundna hlutverk.

Nú vitum við vel að Ríkisútvarpið hefur skyldur umfram aðra ljósvakafjölmiðla samkvæmt lögum. Við breyttum útvarpslögum árið 2000. Ný útvarpslög gengu í gildi 17. maí árið 2000. Það er nokkur lagabálkur upp á einar sex blaðsíður eða á sjöttu blaðsíðu í lagasafni Alþingis. Þá voru á sama tíma skilin frá þeim útvarpslögum sérstök lög eða sjálfstæð lög sem fjalla um Ríkisútvarpið. Ég gagnrýndi það á þeim tíma að ekki hefði verið farið í metnaðarfulla samningu á nýju frumvarpi um Ríkisútvarpið á þeim tíma. Það má segja að þegar búið var að skilja hin almennu lagaákvæði frá og setja í bálkinn útvarpslög þá voru slitrurnar sem eftir voru settar undir fyrirsögnina „Lög um Ríkisútvarpið“. Þá strax var full þörf á því að endurnýja lagabálkinn um Ríkisútvarpið og endurskilgreina markmið þess og skyldur.

Mér finnst nauðsynlegt að Ríkisútvarpið hafi skyldur umfram aðra ljósvakafjölmiðla á Íslandi. Skýringin er sú að Ríkisútvarpið er í mínum huga menningarstofnun, ein af menningarstofnunum, ekki þó í eigu ríkisins heldur menningarstofnun sem þjóðin á í sameiningu. Ríkisútvarpið á að vera í eign þjóðarinnar í mínum huga alveg á nákvæmlega sama hátt og Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið og aðrar öflugar menningarstofnanir í eigu þessarar þjóðar. Um þessar stofnanir eiga að gilda lög og þær eiga að fá svigrúm og það fjármagn sem þarf til þess að standa undir þeim lagalegu skyldum sem þeir þjóðkjörnu fulltrúar sem hér sitja leggja þeim á herðar.

Þessu hefur ekki verið að heilsa, hæstv. forseti. Ég vil meina að það sé hálfgerður plagsiður hjá þessari ríkisstjórn að svelta ríkisstofnanir það langt fram á horrimina að á endanum þegar ríkisstjórnin svo kemur með hlutafélagafánann þá snýr hún hungruðum forsvarsmönnum viðkomandi stofnana inn á það að hlutafélagavæðast af því að það sé eina ráðið til þess að þeir upplifi einhvers konar frelsi. Ég get nefnt Tækniháskóla Íslands sem með þessum aðferðum hefur verið sveltur af ríkisstjórninni inn á einkavæðingarbraut. Þetta eru aðferðir sem ríkisstjórnin hefur beitt meðvitað og hún hefur verið að beita þessari aðferð við Ríkisútvarpið.

Hins vegar má vera að ríkisstjórnin sé að vitkast og sé að átta sig á því að það sé kannski einhver fengur í því að halda Ríkisútvarpinu í þjóðareign. Í öllu falli var ekkert í boðskap hæstv. menntamálaráðherra um helgina sem segir okkur að nú eigi að hlutafélagavæða þannig að að því leytinu til segi ég: Guð láti gott á vita. Við skulum vona að Ríkisútvarpið fái áfram að vera í þjóðareign en ríkisstjórnin ani ekki með á einkavæðingarmarkað.

Það er þó ámælisvert af hæstv. menntamálaráðherra að hún skuli leyfa sér að fara fram á völlinn án þess að vera með nokkuð í höndunum sem hægt er bjóða fram sem umræðugrundvöll því að ekki er hún með frumvarp í höndunum. Nei, hún er ekki einu sinni með frumvarpsdrög. Hún er ekki með neinar mótaðar hugmyndir starfshóps eða nefndar sem við höfum talið hingað til að ætti að vera í vinnu hjá hæstv. menntamálaráðherra við að semja tillögur að frumvarpi. Ekkert slíkt er lagt fram. Hér er einungis um ákveðnar upphrópanir að ræða sem hafa ekki það bakland sem eðlilegt gæti talist að þær hefðu til þess að umræða gæti farið fram af einhverju viti um þessar yfirlýsingar eða hugmyndir.

Sjálf á ég sæti í fjölmiðlanefnd sem er að störfum um þessar mundir. Sú nefnd var skipuð í kjölfar átaka sem urðu í þessum sal og þjóðfélaginu öllu vegna fjölmiðlafrumvarps ríkisstjórnarinnar frá því í fyrravetur eða fyrravor. Ég verð að segja að margt er mjög spennandi í fjölmiðlaheiminum núna sem er verulega þess virði að fá að tala um og ráðgast um í stórum hópi og samfélagið allt þarf auðvitað að vera mjög virkt í þeirri umræðu. Ég treysti því að þegar sú fjölmiðlanefnd sem ég starfa í skilar af sér sinni skýrslu komi mögulega til með að liggja fyrir ígrundaðar hugmyndir hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Vonandi fá þessi gögn að anda í umræðunni og verða uppspretta (Forseti hringir.) frjórrar umræðu svo að á endanum verði fjölmiðlaumhverfið sem við búum þjóðinni ásættanlegt.