131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:34]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, 1. flutningsmanns þessa þingmáls, hefur það áður verið flutt og það á við um mig eins og ýmsa aðra að ég hef áður tjáð mig um efni þess.

Ég vil byrja á að segja að grunnhugsuninni í þessu þingmáli er ég algjörlega sammála. Grunnhugsunin gengur út á að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins, að Ríkisútvarpið verði áfram sjálfstæð og óháð stofnun í þjóðareign. Í þingsályktunartillögunni og í greinargerð sem henni fylgir er lögð áhersla á menningarlegt gildi Ríkisútvarpsins og gildi þess sem fjölmiðils.

Ég hef hins vegar efasemdir um sumar útfærslur sem lagðar eru til í þessari þingsályktunartillögu og að gefnu tilefni vegna ummæla hæstv. menntamálaráðherra í fjölmiðlum nú um helgina hef ég miklar efasemdir um að Ríkisútvarpið eigi að fara algjörlega á fjárlög eins og hér er lagt til. Hæstv. ráðherra er nokkuð ónákvæmur í sínum yfirlýsingum. Hæstv. ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir að þar komi ýmsir möguleikar til álita en afnotagjöldin verði lögð af. Nefskattur komi til álita og fjárlög, þ.e. að Ríkisútvarpið fari á fjárlög.

Nú byggir Ríkisútvarpið starfsemi sína að uppistöðu til á afnotagjöldum, en 2,4 milljarðar koma inn með þeim hætti. Auglýsingatekjur vega einnig mjög þungt. Tæplega milljarður rann til Ríkisútvarpsins í formi auglýsingatekna á síðasta ári, eitthvað undir milljarðinum en á tíunda hundrað þúsund.

Ef maður ætlar að leggja þessar tekjur af, víkja þessum tekjustofni til hliðar þá verður maður að svara þeirri spurningu hvernig eigi að koma til koma til móts við stofnunina. Á að gera það algjörlega á fjárlögum og treysta á fjárlögin. Ég hef miklar efasemdir um að það sé hyggilegt. Ég hef nokkra reynslu af þessu starfi, ekki aðeins sem starfsmaður Ríkisútvarpsins í nokkuð mörg ár heldur var ég formaður í nefnd sem samdi drög að frumvarpi til útvarpslaga sem lagt var fyrir Alþingi á árinu 1990. Þessi nefnd fór mjög rækilega yfir mögulegar leiðir til fjármögnunar Ríkisútvarpsins. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ekki væri ráðlegt að hverfa frá auglýsingum sem tekjustofni Ríkisútvarpsins.

Í annan stað höfðum við miklar efasemdir um að hyggilegt væri að leggja afnotagjöldin til hliðar. Ég var fyrr í dag að kynna mér umræður sem fóru fram um þetta frumvarp þáverandi hæstv. menntamálaráðherra Svavars Gestssonar á sínum tíma. Ég var m.a. að lesa ræður sem hann flutti þá. Hann tefldi fram nokkrum valkostum. Hann ræddi um fjárlagaleiðina og hafði efasemdir um þá leið. Hann vék að nefskatti. Hann hafði einnig efasemdir um þá leið en talaði um þann möguleika að tengja afnotagjöldin fasteign. Þetta er tillaga sem hefur síðan oft verið í umræðunni og ég tel að komi mjög vel til álita og miklu skynsamlegri kost en þann sem reifaður var af hálfu hæstv. menntamálaráðherra í fjölmiðlum um helgina og einnig þá leið sem lögð er til í þessari þingsályktunartillögu.

Varðandi annan meginþátt í þessu þingmáli sem lýtur að sjálfstæði Ríkisútvarpsins, hvernig eigi að tryggja það, þá finnst mér vel koma til greina að fara inn á þær brautir sem boðaðar eru í þingsályktunartillögunni. Þó vil ég vekja athygli á því að þrátt fyrir allt eru í útvarpsráði lýðræðislega kjörnir fulltrúar. Þeir fulltrúar eru að vísu kosnir óbeinni kosningu. Þeir eru kosnir á Alþingi. Hin pólitísku tengsl inn í Ríkisútvarpið eru þar með mjög sýnileg. Ég sé ákveðinn kost í því. Það sem er alltaf hættulegt og varasamt er leyndin þegar stjórnmálamenn, hvort heldur ríkisstjórn eða stjórnmálaöfl, reyna að hafa áhrif í skjóli leyndar. Það er hættulegt. Það er varasamt. Ég er ekki svo hræddur við það þótt menn séu kosnir af stjórnmálaflokkum ef umræðan er opin.

Það sem lagt var til 1990 í því frumvarpi sem ég vísaði til var að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins með því að einskorða vald útvarpsráðs við almennan dagskrárramma, almenna stefnu í dagskrármálum, en styrkja stjórnunarlega innviði Ríkisútvarpsins að sama skapi. Þannig var framkvæmdastjórn falin aukin völd frá því sem áður var en aðkomu að henni höfðu starfsmenn með þá tillögurétti og atkvæðisrétti inni í þeirri stofnun. Mér finnst vel koma til greina að skoða eitthvert fyrirkomulag sem byggði á þeirri hugsun sem hér er reifuð, þ.e. aukinni aðkomu starfsmanna. En ég vil ekkert útiloka það að stjórnmálaflokkar og Alþingi komi einnig að skipan mála. Mér finnst, eins og ég segi, aldrei til ills hin pólitísku tengsl sem eru nú bara annað heiti á lýðræðislegum tengslum og fráleitt að gera allt slíkt tortryggilegt, alveg fráleitt. Þau eru ekki af hinu illa nema síður sé ef þau eru sýnileg. Mér finnst hins vegar að takmarka eigi ráð stjórnmálamanna þegar kemur að smáatriðum í rekstri stofnunar. En hvað varðar almenna stefnumótun finnst mér það geta verið kostur að tengslin við Alþingi verði ekki rofin.