131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:57]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað er að aðstæðum mínum, menntun eða fyrri störfum, en kannski að hv. þingmaður upplýsi það á eftir.

Ég held að vísu að hv. þm. Mörður Árnason hafi komið inn á hvaða vandi okkur er á höndum þegar hann kom með þessar skilgreiningar, jafnágætar og þær eru. Þær voru eins víðfeðmar og getur orðið. Ég held að ef við settumst niður, ég og hv. þm. Mörður Árnason, segjum að við ættum að stýra þessu almenningsútvarpi, og ættum að fara að útlista og ættum síðan að útlista þótt ekki væru nema bara þessar þrjár skilgreiningar sem þingmaðurinn kom með, ég tala ekki um ef við skoðuðum allar níu, þá væri ekki algjörlega sjálfgefið að við kæmumst að sömu niðurstöðu. Það er bara þannig.

Ég tel því allra hluta vegna mjög mikilvægt að við reynum að skilgreina hlutverkið og skilgreina á hvaða sviði við sjáum Ríkisútvarpið. Vilja menn kannski sjá það eins og ég var að velta upp áðan, bara í innlendri dagskrárgerð eða að langstærstum hluta? Eða vilja menn að það keppi um alla íþróttaviðburði eða keppi um knattspyrnu við einkastöðvar? Er það það sem menn vilja, að Ríkisútvarpið keppi á hvaða sviði sem er, að það sé algerlega opið og engin þrenging? Menn geta alveg haft þá skoðun. Ég held að það sé ekki gott, ekki fyrir stofnunina og ekki fyrir markaðinn í heild sinni.

Ég held að það sé mikið verk óunnið og það væri æskilegt og alls ekki útilokað að menn gætu náð sátt um það á milli flokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við skulum sjá hvernig það fer.