131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:59]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það var alls ekki meiningin með nokkrum hætti að setja út á hv. þingmann með tilvísun til fyrri starfa hans. Hv. þingmaður hefur einmitt rekið útvarpsstöð og ætti því að vera kunnugri þessu málefni en margir aðrir sem í salnum eru og á mig hlýða.

Ég er ekki sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um að við getum ekki fundið út hvað svona útvarp á að vera. Við höfum almennar skilgreiningar Prag-samþykktarinnar. Þar eru engar uppgötvanir gerðar heldur eru þar dregið saman það hlutverk sem menn telja slíkt útvarp hafa út frá evrópskri reynslu af almannaútvarpi, þ.e. hver eigi að vera kjarninn í rekstri almannaútvarps.

Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hv. þingmaður sagði. Ég tel ekki að það sé eitt af kjarnahlutverkum almannaútvarpsins að vera með enska, þýska, franska, spænska eða ítalska boltann. Ég tel hins vegar að innan kjarnahlutverks almannaútvarps af þessu tagi sé að sinna íslenskum íþróttum, sérstaklega þeim sem aðrir eru ekki jafnfúsir að sinna vegna þess að þær hafa ekki markaðsstuðning eða búa ekki við feikivinsældir. Það má m.a. minnast á að góður almannaútvarpsmaður, Samúel Örn Erlingsson, fékk viðurkenningu um helgina fyrir áhuga sinn og kraft. Hann er yfirmaður íþróttadeildar RÚV, sem fær því viðurkenninguna fyrir að sinna kvennaknattspyrnu sem er, eftir 10 eða 15 ár, komin á það stig að menn eru farnir að fylgjast almennt með henni.

Kvennaknattspyrna er ekki eitt af því sem markaðsstöðvarnar hefðu viljað sinna fyrr á árum en er hins vegar eitt af því sem almannaútvarp á að sinna, vegna þess að sú umfjöllun og um íþróttir í yngri flokkunum, þannig að við ræðum um sameiginlegt áhugasvið okkar hv. þingmanns, íþróttir í yngri flokkunum og ýmsar aðra hliðar þess, er eitt af því sem markaðurinn stendur ekki á bak við og þar sem markaðsstöðvarnar taka ekki við. Ef við tökum bara eitt dæmi held ég að mér og formanni Fjölnis í Grafarvogi gengi bara hreint ágætlega að skipuleggja rekstur Ríkisútvarps á almannasviði í íþróttadeildinni.