131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:01]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Mörður Árnason erum sammála um margt hvað þetta varðar. Þegar menn skilgreina hvort sem menn kalla það almannaútvarp eða ríkisútvarp, þetta er auðvitað fyrirtæki í ríkiseigu, hlýtur útgangspunkturinn að vera það sem snýr að íslensku efni. Það er alla vega alveg skýrt í mínum huga.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að sjónvarpsstöðvarnar og fjölmiðlarnir hafi því miður t.d. ekki sinnt kvennaíþróttunum sem skyldi og gott að sjá að hlutirnir eru að þróast í þá átt. Ég held að vísu að það sé miklu meiri eftirspurn eftir því en menn hafi kannski áttað sig á sem eru að stýra slíkum hlutum.

Af því að menn tala um það sem er að gerast í heiminum, við getum kallað það alþjóðavæðingu sem menn geta lagt út af með dæmum eins og að við horfum á sömu sjónvarpsþættina og fólk beggja vegna Atlantshafsins. En á sama tíma hefur fólk meiri áhuga á því sem stendur því nær. Við sjáum t.d. í Reykjavík að hverfisblöð og ýmislegt slíkt er að koma upp sem aldrei fyrr og sama þróun er úti á landi. Ég held að það sé algjört markmið að stofnun eins og þessi sinni vel því sem íslenskt er. Íþróttir, bæði kvenna og karla, eru mjög gott dæmi en af mjög mörgu öðru er að taka. Það væri gott ef það næðist sátt um að það væri hlutverk Ríkisútvarpsins á meðan einkaaðilarnir mundu sinna öðrum þáttum sem við viljum sjá og heyra á öldum ljósvakans.