131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:24]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það bara svo að flestir keppast við að skera niður skattana, draga úr tekjum ríkisins og þar með möguleikum til að koma til móts við aðila á borð við Ríkisútvarpið.

Varðandi kostunina þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að ekki er hægt að setja hana alla undir sama hatt. Kostun sem hugsanlega hefur áhrif á dagskrárgerðina er eitt og annað kann að eiga við um heimsmeistarakeppnina í fótbolta að öðru leyti en því að ef útvarpsstöð eða sjónvarpsstöð er þannig auðveldaður aðgangur að efni fer það að hafa áhrif á forgangsröðun í dagskrárgerðinni, sérstaklega ef stöðin hefur litla fjármuni handa á milli.

Allt eru þetta spurningar sem við þurfum að ræða rækilega. Við erum í grundvallaratriðum sammála um öll meginmarkmið en það er mjög mikilvægt að þessi umræða fái að blómstra í þjóðfélaginu. Sannast sagna brá mér nokkuð við yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra um helgina því þar fannst mér ekki boðið upp á mikla umræðu.