131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:37]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram núna í nokkrar stundir um þá tillögu sem við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum flutt um málefni Ríkisútvarpsins, tillögu til þingsályktunar um framtíðarrekstur og fyrirkomulag Ríkisútvarpsins. Það var svo sem að vonum að við værum ekki öll algjörlega sammála þó að mér finnist nú að megintónninn í umræðunni hafi samt sem áður verið sá að þingmenn vilja í fyrsta lagi að Ríkisútvarpið sé til sem sterk stofnun, lýðræðisleg stofnun fyrir þjóðina og þjóni hagsmunum þjóðarinnar. Og þingmenn vilja að Ríkisútvarpið teljist sem mest óháð stofnun, þ.e. því megi treysta að Ríkisútvarpið hafi það hlutverk sem það hefur reyndar í lögum í dag, að flytja öll sjónarmið, gera öllum sjónarmiðum nokkurn veginn jafnhátt undir höfði og koma skoðunum á framfæri og varpa ljósi á umræðuna, m.a. stjórnmálaumræðuna um það hvað menn leggja með sér í rökræðuna og gera því skil.

Mér finnst það mikilvægt hlutverk Ríkisútvarpsins að reyna að fræða þjóðina og efla þekkingu hennar eins og framast er kostur og það er vissulega oft þörf á því bæði í umfjöllun um einstök málefni og eins í stjórnmálaumræðunni að varpa ljósi á þær skoðanir sem settar eru fram í umræðunni og skýra þær. Að sumu leyti hefur Ríkisútvarpið gert það bara nokkuð vel á undanförnum árum að fjalla um ýmislegt og mörg málefni sem eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu. Ég tel að það eigi að vera meginmarkmið Ríkisútvarpsins á komandi árum að sjá til þess að vera fræðandi og upplýsandi og sjá til þess að varpa ljósi á umræðuna frá mörgum sjónarhornum, ólíkum sjónarhornum og draga fram sem skýrasta mynd af þeim álitamálum sem verið er að fjalla um í þjóðfélaginu á hverjum tíma, ekki síst það að vera einnig fræðandi um áhugaverð efni, bæði stjórnmálaleg sem önnur.

Segja má að mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins sé í þágu lýðræðisins sem endurspeglast í því að Ríkisútvarpinu ber, eins og áður sagði, samkvæmt lögum að gæta óhlutdrægni og vernda skoðanafrelsið og halda uppi fjölbreyttum skoðunum. Það hefur lögbundið hlutverk og rétt að minna á það með því að vitna beint í lagarammann, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“

Vafalaust má um það deila hvort Ríkisútvarpið hafi ávallt leitast við að rækja þessar skyldur og um það geta menn auðvitað haft skoðanir og misjafnar. En ég held hins vegar að óumdeilt sé að fjölmiðlarnir í einkaeigu hafa ekki þær skyldur sem hér eru markaðar í lögum um Ríkisútvarpið og ég held að svona oftast nær hafi Ríkisútvarpið leitast við að uppfylla þessar skyldur sínar þó að við höfum vissulega oft gagnrýnt umfjöllun Ríkisútvarpsins og menn hafa jafnvel sett á það ákveðinn lit og kallað það nöfnum eins og bláskjár eða eitthvað slíkt, en þá held ég nú samt að þjóðinni almennt sé mjög annt um Ríkisútvarpið þrátt fyrir að þar sé skipst annað slagið á skörpum skoðunum. Þetta held ég að við hljótum öll að vera sammála um. Ég varð ekki var við það hér í umræðunni að skoðanir fólks skarist mikið hvað varðar þessi meginmarkmið.

Öll sú umræða sem núna fer fram um fjölmiðlun í landinu og mögulega dreifingu á efni o.s.frv. er náttúrlega alveg á fleygiferð og í raun er þjóðin að horfa fram á algjörlega nýja tækni. Verið er að tala um gagnvirkt sjónvarp þar sem fólk getur komið skoðunum sínum á framfæri og kallað fram efni sem það vill fá og stjórnað í rauninni sinni eigin dagskrá varðandi sjónvarpsefni í framtíðinni. Það er vissulega svo að þegar við erum að hugsa um Ríkisútvarpið sem þjóðarútvarp erum við auðvitað líka að segja það að eðlilegt sé að Ríkisútvarpið taki vel við ábendingum almennings og sé í góðum tengslum við almenning, m.a. með því að þar sé hægt að tengjast þeirri nútímatækni sem við munum eiga von á í framtíðinni. En það er í raun og veru önnur umræða að taka þá tækniumræðu alla, við gerðum það dálítið þegar við ræddum um Símann og ég ætla ekki að fara lengra út í það. Sú umræða kemur örugglega hér upp þegar við förum að tala um niðurstöðu hinnar svokölluðu fjölmiðlanefndar sem tengist því almennt hvernig við dreifum efni um landið og hvernig við ætlum að tryggja það að almenningur hafi jafnan og sem ódýrastan aðgang að því efni sem boðið er upp á í landinu.

Við sem flytjum þessa tillögu teljum að Ríkisútvarpið gæti betur mætt gríðarlegum áhuga fólks á alls konar fræðsluefni og kröfum fólks um aukna menntun, endurmenntun og símenntun og nýta megi Ríkisútvarpið í þá veru í framtíðinni. Við teljum það hlutverk Ríkisútvarpsins að tryggja jafna stöðu landsmanna að þessu leyti þar sem Ríkisútvarpið heyrist um allt land. Bæta þarf aðgang landsmanna að slíku efni sem vonandi mun boðið upp á í íslensku ríkisútvarpi. Aðgangur landsmanna verður að vera sem jafnastur að efni og fræðslu. Sú tillaga sem hér er til umræðu beinist að miklu leyti að því að við tryggjum ákveðna lýðræðisþróun með því að viðhalda Ríkisútvarpinu til framtíðar. Við teljum að það hafi mikið hlutverk fyrir íslenska menningu og íslenska tungu.

Hins vegar er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að til að svo megi verða verðum við að tryggja Ríkisútvarpinu tekjur. Það verður að vera einhver festa í þeim tekjum, einhver vissa um að ekki sé allt í uppnámi um hver áramót. Það verður að vera fastur rammi um fjárhaginn.

Ég tek undir það sem komið hefur fram í umræðunni, að innheimtukerfið sem notast er við í dag er mjög dýrt. Það fara miklir fjármunir í að halda því kerfi úti og er örugglega hægt að ná betri skilum en með núverandi innheimtukerfi.

Við lítum svo á að Ríkisútvarpið eigi að vera þjóðarútvarp og stýrt af fulltrúum fólksins, yfir því sé yfirstjórn og sem starfi sem minnst út frá pólitísk. Sú flokkspólitík sem þar hefur ráðið ríkjum á undanförnum árum ætti að hverfa að mestu en inn í yfirstjórn Ríkisútvarpsins sé valið sérstakt útvarpsráð eða akademísk stjórn. Hægt væri að finna ýmiss konar form á því og um það er m.a. fjallað í greinargerð, að hugsanlegt sé að hafa jafnframt ákveðið form á endurnýjun í slíku ráði og að því kæmu ýmsir aðilar í þjóðfélaginu frá menningarhliðinni, í almenningsfræðslunni, frá stéttarfélögum, félagasamtökum. Þannig mundum við tryggja sem mesta breidd og yfirstjórn útvarpsins væri skipuð fólki víða að úr þjóðfélaginu með ólíkan bakgrunn og ólík viðhorf.

Meginmarkmiðið hlýtur alltaf að vera, hæstv. forseti, að Ríkisútvarpið viðhaldi góðu og fræðandi efni eins og það hefur reyndar oft gert. Ég held líka að við verðum að viðurkenna þá staðreynd að Ríkisútvarpið, í þeirri stöðu sem það verður ef svo fer sem hér er lagt upp með, verði ekki í fullri samkeppni við einkareknar stöðvar. Þennan farveg þurfum við að finna. Við sem flytjum tillöguna gerum okkur ljóst að þótt við höfum skrifað ákveðna leiðbeiningu um hvað við vildum gjarnan sjá sem grunn að lagasetningu eða frumvarpi til laga um starfsemi Ríkisútvarpsins til framtíðar. Við bendum á ýmsar leiðir og möguleika sem þarf að skoða en við ímyndum okkur ekki að í viljayfirlýsingu okkar í greinargerðin sé svo fullkominn texti að enginn geti komið með betri lausnir. Vonandi á eftir að ræða vítt og breitt um stöðu Ríkisútvarpsins.

Við teljum að af ýmsum ástæðum þurfi Ríkisútvarpið að reka fleiri eina rás, það þurfi að reka Rás 1 og viðhalda langbylgjusendingum, m.a. af öryggisástæðum og til að ná dreifingu um fiskimið landsins og til fjarlægra byggða. Það hefur margsýnt sig, síðast í vetur, að rásir Ríkisútvarpsins geta dottið út á heilum landsvæðum sem ná ekki að hlusta á nema langbylgjusendingar útvarpsins. Þar hefur m.a. komið í ljós öryggishlutverk Ríkisútvarpsins. Við munum sjálfsagt áfram búa við að veðurfar á Íslandi valdi því annað slagið að langbylgjan verði neyðartækið til að koma skilaboðum áleiðis. Þannig hefur það oft verið og mun örugglega halda áfram.

Við teljum einnig að viðhalda þurfi Rás 2, m.a. út frá hagsmunum landshlutaútvarpsstöðva. Þar er sinnt öðru efni en almennt er gert á Rás 1, m.a. hinum dreifðu byggðum með því að fjalla þar um mismunandi málefni á þeim svæðum.

Hæstv. forseti. Ég tel að tillögunni hafi verið gerð ágætis skil í umræðunum. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni og vona að þetta mál, sem nú er rætt í fimmta sinn, muni kannski líkt og dropinn hola steininn og núverandi menntamálaráðherra komi inn með frumvarp sem við fáum að taka til umfjöllunar. Efni tillögunnar sem við ræðum hér gengi þar með inn í þá vinnu sem væntanlega fer þá fram um hvaða stefnu skuli taka og hvert hlutverk Ríkisútvarpsins verði á komandi árum.